„Ég er orðinn helvíti þreyttur“

Rúm tvö ár eru liðin frá handa­ágræðslu Guðmund­ar Felix Grétarssonar.
Rúm tvö ár eru liðin frá handa­ágræðslu Guðmund­ar Felix Grétarssonar.

Guðmund­ur Fel­ix Grét­ars­son segir stöðuna á handleggjunum, sem hann fékk ágrædda fyrir rúmlega tveimur árum, vera ágæta eftir alvarlegt bakslag þegar líkaminn byrjaði að hafna handleggjunum. Hann er þó enn með sýkingu og annar handleggurinn sýnir enn höfnunareinkenni. 

„Ég er enn þá að díla við þetta allt saman, enn þá á sýklalyfjum, enn þá með dren og enn þá með gifs,“ segir Guðmundur Felix í samtali við mbl.is en í lok apríl greindi hann frá sýkingu sem olli því að líkaminn byrjaði að sýna höfnunareinkenni. 

Rúmlega einum mánuði og sex aðgerðum síðar hrjáir sýkingin Guðmund Felix enn.

„Það grær ekkert þetta sár því það kemur svo mikill vökvi úr því. En þetta er allt í lagi. Þetta bara tekur allt miklu lengri tíma.“

„Svakaleg“ lyfjagjöf

Guðmundur Felix birti mynd af öðrum handleggnum á Instagram fyrir viku síðan þar sem sést hversu bólginn handleggurinn er. 

Er þetta ekki ofboðslega sárt?

„Nei, það er kannski það góða við að maður ekki með fulla taugavirkni þarna. Það þurfti að skera mig allan upp og ég finn lítið fyrir því.“

Hann nefnir þó að vökvi dropi út úr sárinu og því grói það ekki. 

„Á meðan sárið grær ekki þá á ég alltaf í hættu á að fá inn þar einhverjar „pöddur“. Þannig að ég er orðinn helvíti þreyttur, ég viðurkenni það,“ segir Guðmundur Felix og bætir við að lyfjagjöfin sem hann hefur fengið síðasta mánuðinn hafi verið „svakaleg“.

Í eftirliti tvisvar til þrisvar í viku

„Ég byrjaði að hafna þessu og svo fer ég á þessi lyf út af höfnuninni og þá blossar upp sýkingin. Þannig að við þurftum að reyna að fá ónæmiskerfið upp aftur til þess að hjálpa mér að vinna á þessari sýkingu,“ segir Guðmundur Felix en hann fer í eftirlit á sjúkrahúsið tvisvar til þrisvar í viku. 

Er blaðamaður ræddi við hann síðdegis í dag var nýbúið að taka sýni úr hægri handleggnum sem sýnir enn höfnunareinkenni. 

Á næstu dögum fær Guðmundur Felix niðurstöður úr sýnatökunni sem munu segja til um hvort um eiginlega höfnun sé að ræða. 

Hann segir að handleggurinn sé nú allur rauður og óvíst sé af hverju það sé. 

Betri handleggurinn í veseni

Vinstri handleggurinn er að sögn Guðmundar Felix í lagi en hann getur minna notað hann. Sá handleggur var græddur við öxl.

„Þetta er betri handleggurinn sem ég er í veseni með.“

Spurður hvort að hann komist í gott sumarfrí segir Guðmundur Felix að íslenskur vinur sé nú í heimsókn hjá honum. Guðmundur Felix hef­ur verið bú­sett­ur í Lyon í Frakklandi síðan árið 2013 og býr þar ásamt eig­in­konu sinni, Sylwiu Gret­ars­son.

„Það hressir upp á þetta,“ segir hann að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert