Engin ákvörðun hefur verið tekin um að fjarlægja hringtorgið við JL-húsið. Þetta kemur fram í svari samgöngustjóra Reykjavíkurborgar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í umhverfis- og skipulagsráði.
Áheyrnarfulltrúinn, Kolbrún Baldursdóttir, lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
„Uggur er í Seltirningum varðandi mögulegar breytingar í sambandi við hringtorgið í Vesturbæ við JL-húsið og að setja eigi svokölluð T-gatnamót. Ef úr verður, verður ekki lengur hægt að taka vinstri beygju frá vesturenda JL-hússins, Hringbrautar 121, inn á Eiðsgrandann í vesturátt út á Seltjarnarnes.
Flokkur fólksins spyr hvort ekki eigi að ræða við Seltirninga um útfærslur og áhrif þeirra. Hér er einmitt mál af þeirri stærðargráðu að hafa á samráð eða eiga samtal við nágrannasveitarfélag? Vegagerðin er með þetta mál enda þjóðvegur í þéttbýli. Borgin er vissulega með skipulagsvaldið.“
Samgöngustjórinn, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, segir í svari sínu að á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 8. mars sl. hafi verið lagðar til breytingar á gönguþverun yfir Ánanaust og ný gönguljós yfir Eiðisgranda við gatnamótin.
Markmið breytinganna sé að bæta umferðaröryggi og aðgengi gangandi og hjólandi vegfarenda. Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og VG hafi lagt fram svohljóðandi bókun, sem varð tilefni fjölmiðlaumræðu í kjölfarið:
„Við samþykkjum til bráðabirgða tillögu um bætta ljósastýringu og gönguþverun við gatnamót Hringbrautar og Ánanausta. En betur má ef duga skal. Íbúðum fjölgar mikið á svæðinu næstu misseri. Hringtorgið og næsta nágrenni þess er afleitt og beinlínis hættulegt fyrir fótgangandi vegfarendur. Umferðin á þessum stað er of hröð og hættuleg. Æskileg væri að fækka akreinum meðfram ströndinni og breyta hringtorginu í klassísk ljósastýrð T-gatnamót.“
Samgöngustjórinn ítrekar að slíkar breytingar yrðu alltaf unnar sem samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar í samráði við hagaðila, þar á meðal Seltjarnarnes.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.