Heildartjón netsvika á Íslandi yfir 2 milljörðum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við svikapóstum um fjárkúgun í nafni …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við svikapóstum um fjárkúgun í nafni lögreglu. Ljósmynd/Unsplash

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við svikapóstum um fjárkúgun í nafni lögreglu. Heildartjón netsvika sem tilkynnt hafa verið til lögreglu á Íslandi stefnir í að fara yfir tvo milljarða á þessu ári. 

Í Facebook-færslu lögreglunnar segir að þessir póstar komi í bylgjum, „svindlararnir senda póstana frá nýjum og nýjum netpóstum og nota skammlaust einkenni lögreglu á Íslandi, dómsmálaráðuneytisins, Interpol og Europol“. 

Svindlararnir reyna að telja fólki trú um að viðkomandi hafi komið upp í rannsókn lögreglu tengdri barnaklámi. Viðtakanda er boðið að gera upp málið með sekt, ellegar fá á sig ákæru og verða settur á skrá sem fjölmiðlar munu birta. 

Þetta er gert til að hræða viðtakanda og fá fólk til að bregðast við í geðshræringu og senda peninga,“ segir í færslunni. 

60 milljónir eða meira í fjórum málum

Þá segir að þessir póstar séu til svo tugþúsundum skipti og hafi mælanlega meiri áhrif á þá sem eldri eru og skilja ekki hversu auðvelt það sé að svíkjast um á netinu.

Lögreglan biður fólk að skoða netföng á póstum sem eru grunsamlegir og bendir á að lögregla notar ekki gmail, outlook eða aðrar slíkar þjónustur. 

Þá segir í færslunni að fjögur mál hafi verið til rannsóknar þar sem tekist hefur að svíkja 60 milljónir eða meira frá einstaklingum.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert