Ísland er langt undir meðaltali OECD-ríkjanna þegar kemur að skipulögðum grænum svæðum í þéttbýli. Einungis 3,5% svæða í þéttbýli eru skipulögð sem græn svæði hérlendis samanborið við 17% meðaltal OECD-ríkjanna.
Þetta kom fram í svari Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfisráðherra við fyrirspurn Diljár Mistar Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, á Alþingi í dag. Vísaði ráðherra í nýlega úttekt OECD um húsnæðismarkaðinn á Íslandi.
Diljá Mist vildi m.a. vita hvernig aðgengi íbúa í Reykjavík að grænum svæðum væri í alþjóðlegum samanburði og hvort græn svæði ættu undir högg að sækja í núverandi skipulagi Reykjavíkur, m.a. vegna stefnu um þéttingu byggðar.
Þá vildi hún sérstaklega fá að heyra afstöðu Guðlaugs Þórs gagnvart fyrirhugaðri landfyllingu í Skerjafirði þar sem borgin hyggur á uppbyggingu.
Umhverfisráðherra sagði mikinn fjölda grænna svæða á höfuðborgarsvæðinu og utan þéttbýlisins. Aðgengi Íslendinga að grænum svæðum væri þó ekki gott í samanburði við hin OECD-ríkin.
Guðlaugur Þór taldi alveg ljóst að græn svæði yrðu fyrir raski vegna áforma um þéttingu byggðar og nefndi hann m.a. byggingaráform við Elliðaárdal og Laugardal.
Hvað varðar landfyllingu í Skerjafirði var ráðherrann ómyrkur í máli og sagði það stefna í stórt umhverfisslys.