Kemur til greina að víkja frá launahækkunum

Bjarni Benediktsson, yfirgefur Ráðherrabústaðinn að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Bjarni Benediktsson, yfirgefur Ráðherrabústaðinn að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að til greina komi að víkja frá væntum launahækkunum æðstu ráðamanna þjóðarinnar.

Laun ráðamanna taka breytingum 1. júlí ár hvert en Hagstofan reiknar út hver breytingin skuli verða og gefur út fyrir 1. júní. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra hefur sagt að búast megi við launahækkunum um allt að 6,3 prósentustigum.

Erfitt að sjá fyrir sér fyrirkomulag sem sátt getur verið um

Fjármálaráðherra segir í samtali við mbl.is að málið hafi ekki verið til sérstakrar umræðu í ríkisstjórn en að það komi alltaf í sjálfu sér til greina að víkja frá launahækkunum með einhverjum hætti eins og ríkisstjórnin hafi sýnt í verki.

Segir Bjarni að það sem forsætisráðherra hafi greint frá sé það sem felist í lögunum. Hann segir að við lagasetninguna árið 2019, þegar kjararáð hafi verið lagt niður, hafi náðst samkomulag um núverandi viðmið.

„Það var ágætis samhljómur um að laun æðstu embættismanna skyldu taka breytingum með hliðsjón af því sem gerst hafði í samningum hjá opinberum starfsmönnum með þessum hætti. Að því leytinu til verður ekki annað sagt en að erfitt verði að sjá fyrir sér fyrirkomulag sem nokkur sátt geti verið um fyrir æðstu embættismenn ríkisins,“ segir Bjarni.

Laun ráðherra hækki um 141.000 krónur

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, sagði í færslu á samfélagsmiðlum í gær að laun forsætisráðherra hækki sem nemur 156.000 krónum á mánuði miðað við forsendur Hagstofunnar. Aðrir ráðherrar og forseti Alþingis muni samkvæmt því hækka í launum um 141.000 krónur, laun formanna flokka um 127.000 krónur og laun óbreyttra þingmanna um 85.000 krónur á mánuði.

Segir Vilhjálmur að Starfsgreinasambandið hafi samið um krónutöluhækkun upp á 43.000 krónur á mánuði auk viðbótarhækkunar til handa fiskvinnslufólki. Þá segir hann að VR og iðnaðarmenn hafi samið um 66.000 króna þak á launahækkanir.

Aðspurður um vænta krónutöluhækkun launa æðstu embættismanna í samanburði við það þak sem samið hefur verið um í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði segir Bjarni að misjafnt sé eftir kjarasamningum um hvað sé samið. Þá segir hann að umsamdar kjarasamningshækkanir séu eitt og það sem gerist á vinnumarkaði annað og vísar til launavísitölunnar í því sambandi.

„Margoft frestað og gert breytingar“

„Í lögunum á sínum tíma var leitast við að finna viðmið sem gæti endurspeglað eðlilegar breytingar yfir tíma. En ég er nú orðinn það gamall í hettunni að ég er fyrir löngu búinn að átta mig á því að það er líklega ekki til neitt fyrirkomulag sem sátt getur ríkt um fyrir launaákvarðanir æðstu embættismanna ríkisins,“ segir Bjarni.

Margir ráðamenn hafa talað um að laun hafi hækkað of mikið. Hvernig finnst þér þessi vænta launahækkun koma inn í þá umræðu?

„Síðustu verðbólgumælingar voru upp á um 9,5% verðbólgu og við erum að tala um breytingar upp á 6%, það er raunlaunalækkun,“ segir Bjarni.

Aðspurður hvort komi til greina, vegna aðstæðna, að víkja frá væntum launahækkunum segir Bjarni að lögin geri ráð fyrir því að taxtar breytist í samræmi við það sem samið hefur verið um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert