Til stendur að fækka stjórnendum við fyrirhugaða sameiningu ríkisstofnana er greint var frá fyrr í dag.
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra segir núverandi starfsfólk njóta forgangs til starfa í nýjum stofnunum en nánari útfærsla liggi þó ekki fyrir enda sé áformaskjal um frumvarp um sameininguna einungis í samráðsgátt.
Hann segir fyrirætlanir sínar þó mjög skýrar, þ.e. að fækka stofnunum, styrkja þær og efla.
„Við vitum það öll og það er búið að tala um það lengi að þessar stofnanir eru allt of fámennar og allt of margar,“ segir Guðlaugur Þór sem telur jafnframt að hægt sé að ná betri árangri með sameiningunni.
„Ég legg líka áherslu á það markmið okkar að styrkja og efla starfsemi á landsbyggðinni,“ segir ráðherrann og tekur fram að fyrsta skrefið hafi verið að flytja lögheimili Vatnajökulsþjóðgarðs á Höfn í Hornafirði.
Fleiri skref verði tekin í þá átt en með endurnýjun starfsfólks verði starfsstöðvum fjölgað á landsbyggðinni. Þangað til verði þó enginn skikkaður til að færa sig um set. Stuðningur verði við störf óháð staðsetningu með sveigjanlegum starfsstöðvum í kjörnum sem dreifast um landið og markvisst verði unnið með að efla starfsstöðvar á landsbyggðinni.
Í áformaskjali um lagasetningu sem liggur í samráðsgátt er gert ráð fyrir að Náttúruverndar- og minjastofnun sjái um málefni sem fallið hafa undir stofnanir Vatnajökulsþjóðgarðs, Þjóðgarðsins á Þingvöllum, náttúruverndarsvið Umhverfisstofnunar og Minjastofnunar.
Undir Náttúruvísindastofnun fara Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknarmiðstöðin við Mývatn (RAMÝ), Veðurstofa Íslands, Landmælingar Íslands og ÍSOR.
Þá á Loftslagsstofnun að fara með málefni Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar.
Talið er að a.m.k. hálft ár þurfi að líða frá samþykki frumvarpsins, ef af því verður, og þar til það getur tekið gildi.
Spurður hvort að hægt verði að tryggja atvinnu fyrir alla þá sem starfa hjá stofnunum tíu, eftir sameininguna, sagði Guðlaugur Þór það liggja fyrir að forstöðumönnum fækki. Þá njóti starfsmenn almennt forgangs til starfa í nýjum stofnunum.