Bjarni Benediktsson segir mikið undir í baráttunni við verðbólguástand sem verður erfiðara að eiga við eftir því sem það gerist þrálátara. Verðbólgan sé vágestur sem þurfi að kveða niður með samstilltu átaki.
Þetta kom fram í munnlegri skýrslu hans um stöðuna í efnahagsmálum á Alþingi í dag.
Ráðherra sagði nær ómögulegt að ná stöðugleika á vinnumarkaði ef verðbólguvæntingar lagast ekki, fjármagnskostnaður í hagkerfinu vex og hætt við því að það dragi úr fjárfestingu og verðvitund bjagast. Heimilin eru þau sem fyrst verða fyrir barðinu á verðbólgunni og því þarf að huga sérstaklega að þeim að sögn Bjarna. Mörg heimili eigi þegar erfitt með að ráða við hækkandi greiðslubyrði vegna óverðtryggðra húsnæðislána.
Bjarni benti þó á þá jákvæðu þróun kaupmáttar og lífskjarasókn sem við höfum verið í. Meðal annars vegna þess að skattar hafa verið lækkaðir, ekki síst á tekjulægri einstaklinga. Þá hefur efnahagsbatinn eftir heimsfaraldur verið sterkari hér á landi en víða annars staðar, en efnahagsbatinn hefur verið hraðari hér á landi en bjartsýnasta fólk þorði að vona.
Efnahagsbatanum hefur þó fylgt nokkuð þrálát verðbólga sem Seðlabankinn hefur brugðist við með því að hækka vexti í samræmi við það meginmarkmið og verkefni bankans að stuðla að stöðugu verðlagi. Þá rakti fjármálaráðherra stöðuna, ásamt því að setja fram lausnir í ræðu sinni.
Í lok hennar benti Bjarni svo á að þrátt fyrir að verkefnin sem fram undan eru séu stór þá sé staða okkar nú mjög sterk og gefur sóknarfæri.