10 til 15 milljónir kr. söfnuðust

Styrktartónleikarnir voru haldnir í Hörpu annan í hvítasunnu.
Styrktartónleikarnir voru haldnir í Hörpu annan í hvítasunnu. Skjáskot/Rúv

„Góðu fréttirnar eru þær að fólk var greinilega að leggja inn og styrkja málstaðinn en slæmu fréttirnar eru að kerfið hrundi,“ segir Ellen Kristjánsdóttir, forsprakki styrktartónleikana Vaknaðu! sem voru haldnir í Hörpu í fyrradag. Gríðarlegt álag var á skilaboðakerfi Vodafone sem olli því að kerfið hrundi og viðskiptavinir Vodafone gátu ekki allir styrkt málstaðinn.

Ekki liggja fyrir lokatölur um það hversu mikið safnaðist en hún segir að það hafi safnast töluvert meira en hún hafði leyft sér að vona. Gylfi Þór Þorsteinsson, teymisstjóri hjá Rauða krossinum, segir að við fyrstu sýn megi áætla að 10-15 milljónir króna hafi safnast.

Rúmlega 1.730 skömmtum af naloxóni verið dreift

Lyfið naloxón í nefúðaformi er hægt að nýta við ofskömmtun á ópíóðum. Mikið var rætt um það á tónleikunum og hafa margir kallað eftir því að lyfið fáist selt sem lausasölulyf. Á liðnu ári var verklagi breytt með þeim hætti að læknar geta ávísað lyfinu til fyrirtækja eða stofnana sem þjónusta fólk sem glímir við ópíóðafíkn og/eða aðstandenda þeirra. Heilbrigðisstofnanir, lögreglumenn, Frú Ragnheiður og fleiri hafa nýtt sér þetta en síðan þetta verklag hófst hefur rúmlega 1.730 skömmtum af naloxóni á nefúðaformi verið dreift.

Tónleikarnir voru skipulagðir af Ellen, RÚV, Hörpu og fleirum til styrktar Frú Ragnheiði og öðrum skaðaminnkandi meðferðum á vegum Rauða krossins vegna ópíóðafaraldursins sem geisar á Íslandi. Viðburðinum var streymt í beinni útsendingu á Ríkisútvarpinu en einnig var hægt að kaupa miða og mæta í Eldborgarsal en þar var uppselt, eða um 1.500 miðar. „Auðvitað skipta peningarnir máli en í þessu samhengi þá gerðist eitthvað sem fór af stað. Það er eins og allir hafi vaknað yfir málstaðnum eins og nafnið á viðburðinum gefur til kynna,“ bætti hún svo við.

„Það var svo mikill kærleikur hjá öllum sem komu að viðburðinum að það er alveg ómetanlegt,“ sagði Ellen að síðustu við Morgunblaðið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert