Almannatryggingar hækka um mitt ár

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. mbl.is/Arnþór

„Við erum að reyna að einblína á aðgerðir fyrir þá hópa sem einna erfiðast eiga í því ástandi sem er akkúrat núna.“

Þetta segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í samtali við mbl.is. Hann segir að boðuð hafi verið hækkun almannatrygginga um mitt ár.

Örorkulífeyrisþegar leita til umboðsmanns skuldara

„Ef við horfum á umboðsmann skuldara til dæmis. Þar er stærstur hluti af þeim sem leita til þess embættis einmitt í hópi örorkulífeyrisþega,“ segir ráðherra.

Guðmundur Ingi segir þær aðgerðir, sem gripið var til um síðustu áramót, hafi fyrst og fremst nýst þeim sem minna hafa. Vísar hann til hækkunar húsnæðisbóta fyrir þá sem eru á leigumarkaði og hækkun barnabóta sem og bætur fyrir fleiri barnafjölskyldur.

Verið að skoða leigubremsu

Segir hnann vinna standa yfir í öðru ráðuneyti hvað varðar húsnæðismarkaðinn, bæði sem snýr að húsnæðisbótum og sérstökum húsnæðisstuðningi.

„Þar er einnig verið að skoða þætti sem mér hugnast mjög vel að verða teknir til frekari skoðunar eins og með einhvers konar leigubremsu. Það er starfandi vinnuhópur á vegum innviðaráðherra og við vonumst til að sjá einhverjar tillögur koma þaðan sem fyrst,“ segir Guðmundur Ingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert