Axel Björnsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus, lést 26. maí sl. á hjúkrunarheimilinu Seltjörn, 80 ára að aldri.
Axel fæddist í Reykjavík 25. september 1942, sonur hjónanna Björns Kristjánssonar, lögregluvarðstjóra og síðar starfsmanns endurskoðunar Reykjavíkurborgar, og Auðar Axelsdóttur húsfreyju.
Axel lauk stúdentsprófi frá MR 1962, stundaði nám í eðlisfræði og jarðeðlisfræði við háskólann í Göttingen, lauk magistersprófi 1968 og doktorsprófi þaðan 1972. Axel hóf störf á jarðhitadeild Orkustofnunar 1972 og vann einkum að þróun nýrra aðferða við jarðhitaleit og öflun jarðhita fyrir hitaveitur víða um land. Hann byggði upp á Orkustofnun sérstaka jarðeðlisfræðideild og var fyrsti deildarstjóri hennar en síðar staðgengill forstjóra jarðhitadeildar stofnunarinnar. Samhliða hagnýtri jarðhitaleit vann Axel að eldfjallarannsóknum á Kröflusvæðinu og grunnrannsóknum á jarðskorpu Íslands.
Axel var framkvæmdastjóri Vísindaráðs 1991-95 og sá um rekstur Vísindasjóðs. Hann vann um skeið að eldfjallarannsóknum á Norrænu eldfjallastofnuninni og var ráðinn prófessor í jarðvísindum og umhverfisfræðum við HA árið 2000, fyrst við kennaradeild en síðar við raunvísindadeild. Axel og Hrefna Kristmannsdóttir, eiginkona hans, höfðu faglega umsjón með og kenndu við jarðhitadeild alþjóðlegs skóla, RES-orkuskóla, sem var rekinn í þrjú ár á Akureyri í tengslum við HA og HÍ.
Axel sat í ritstjórn nokkurra erlendra fagtímarita og var fulltrúi Íslands í nokkrum nefndum og ráðum á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og Evrópubandalagsins. Hann var forseti Vísindafélags Íslendinga. Axel skrifaði fræðigreinar í fagtímarit um jarðhita og eldfjallafræði og samdi kennsluefni um jarðvísindi. Eftir formleg starfslok var hann ráðgjafi við ýmsar jarðhita- og jarðfræðirannsóknir, m.a. í Borgarfirði og fyrir Hitaveitu Seltjarnarness.
Fyrri eiginkona Axels var Ásta Vigbergsdóttir kennari. Þau skildu. Synir þeirra eru Björn og Egill. Seinni kona Axels er Hrefna Kristmannsdóttir, prófessor emeritus í jarðhitafræðum við HA. Börn Hrefnu eru Svanhildur, Björn og Ásdís.