Ekið var á karlmann á rafskútu á Akureyri fyrr í dag. Maðurinn var fluttur til skoðunar á bráðamóttökuna á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þetta staðfestir Árni Páll Jóhannsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri. RÚV greindi fyrst frá.
Tilkynning um slysið barst laust fyrir hádegi en það varð við gatnamót Brekkugötu og Oddeyrargötu.
Í frétt RÚV segir að gatnamótunum hafi verið lokað í kjölfarið og að talsverður viðbúnaður lögreglumanna hafi verið þar.
Í samtali við mbl.is segir Árni Páll engan viðbúnað á vettvangi lengur. Þá kvaðst hann ekki vera með upplýsingar um líðan mannsins sem ekið var á en að ökumaður bílsins hafi sloppið ómeiddur. Umferðarslysið verður rannsakað af lögreglunni.