Fasteignamat hækkar meira á landsbyggðinni

Meiri hækkun varð á fasteignaverði á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.
Meiri hækkun varð á fasteignaverði á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Fasteignamat íbúða hækkar meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í kynningu Húsnæðis og mannvirkjastofnunar (HMS) á þróun fasteignamats fyrir árið 2024. Í heild hækka íbúðaverð um 13,7% á milli ára. Þar af hækkar verð á höfuðborgarsvæðinu um 13% en um 16,1% á landsbyggðinni.

Mest hækkun í Skagabyggð 

Þá kemur fram að hækkun í sérbýli er 14,3% á meðan fjölbýli hækkar um 13,1%. Þetta er meðal þess sem kemur fram í kynningu Húsnæðis og mannvirkjastofnunar (HMS) um fasteignamat á fasteignamarkaði fyrir árið 2024.

Heildar hækkun fasteigna á landinu er 11,7% á milli ára og er svo komið að fasteignamarkaðurinn í heild er metinn á 14.4 billjónir króna en þar af er fasteignamat íbúða 10,6 billjónir króna.

Fasteignamat íbúða á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 13% á meðan hækkun á landsbyggðinni er 16,1%. Mest er hækkunin í Skagabyggð en þar hækkar íbúðarmatið um 43,9%, í Reykhólahrepp um 43,5% og í Vesturbyggð um 33,6%.

Mikil hækkun er á milli ára í Vesturbyggð.
Mikil hækkun er á milli ára í Vesturbyggð. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Hækkun á höfuðborgarsvæðinu

Sé rýnt í tölur á höfuðborgarsvæðinu má sjá að hækkun íbúða er mest á Seltjarnarnesi eða 17,1%, því næst í Reykjavík eða meðalhækkun upp á 13,4%, Þá er 12,9% hækkun í Hafnarfirði og Mosfellsbæ, 11,9 % hækkun í Kópavogi en 10,6% hækkun í Garðabæ.

Lækkun á Grundarfirði

Breyting á íbúðamati er neikvæð í Grundarfjarðarbæ þar sem fasteignamat íbúða lækkar um 0,9%, en minnst hækkun er í Stykkishólmi þar sem hækkunin er 3,3%.

Lækkun er á fasteignamati á Grundarfirði.
Lækkun er á fasteignamati á Grundarfirði. Ljósmynd/FSN

Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 4,8% á landinu öllu; um 4,5% á höfuðborgarsvæðinu en um 5,4% á landsbyggðinni. Fasteignamat sumarhúsa hækkar um 12,7% á landinu öllu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert