„Fordæmalaust magn af fíkniefnum“

Anna Barbara Andradóttir saksóknari sækir málið.
Anna Barbara Andradóttir saksóknari sækir málið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Farið er fram á þyngingu refsingar yfir þeim Guðlaugi Agn­ari Guðmunds­syni, Guðjóni Sig­urðssyni, Hall­dóri Mar­geiri Ólafs­syni og Ólafi Ágústi Hraun­dal fyr­ir skipu­lagða brot­a­starf­semi og stór­felld fíkni­efna­laga­brot í salt­dreifara­málinu svokallaða.

Þetta er meðal þess sem fram kom í málflutningsræðu Önnu Barböru Andradóttur saksóknara fyrir Landsrétti í dag. Ólafur Ágúst og Halldór Margeir voru dæmdir í tólf ára fangelsi í héraðsdómi, en Guðlaugur Agnar og Guðjón hlutu tíu ára dóm.

Krafa um hámarksrefsingu var meðal annars studd þeim sjónarmiðum að um skipulagða brotastarfsemi væri að ræða, sem og fordæmalaust magn af fíkniefnum.

Saltdreifaramálið varðar annars vegar inn­flutn­ing am­feta­mín­vökva í miklu magni og hins veg­ar kanna­bis­rækt­un á sveita­bæn­um Hjalla­nesi við Hellu. Voru efnin flutt til landsins með Norrænu frá Hollandi í saltdreifara, en í honum voru faldir 53 lítrar af amfetamínvökva. 

Sakarferill frá árinu 2003

Anna Barbara benti á að það væri Halldóri Margeiri ekki til málsbóta að játning lægi ekki fyrir í málinu af hans hálfu að því er varðar innflutning saltdreifarans. 

Varðandi refsingu Guðlaugs Agnars tók saksóknari fram að hann hefði neitað að tjá sig við lögreglu og engan aðgang veitt að læstum raftækjum sínum, sem lögregla lagði hald á. Sakarferill hans væri frá árinu 2003 sem einnig ætti að koma til skoðunar við ákvörðun refsingar.

Krafist var þyngingar refsingar yfir Guðjóni og var það mat ákæruvaldsins að þáttur hans í málinu hefði verið umfangsmeiri en hann hefði haldið fram, en fyrir héraðsdómi kvaðst Guðjón ekki hafa staðið að innflutningi á fíkniefnum eða sölu þeirra. Hann hefði verið fenginn til að kaupa saltdreifarann með félaga sínum og átt að fá peninga fyrir að geyma hann.

Anna Barbara benti á að Guðjón hefði verið viðstaddur framleiðslu efnanna og fundið heppilegan stað til að geyma þau á jörð sinni í Hjallanesi. Það væri honum þó til málsbóta að hann hefði haft hreinan sakarferil og aðstoðað við að upplýsa málið.

Aðalmeðferð saltdreifaramálsins svokallaða fer fram í Landsrétti.
Aðalmeðferð saltdreifaramálsins svokallaða fer fram í Landsrétti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Settur undir sama hatt og hinir

Hvað varðar Geir Elí tók saksóknari fram að það væri ekki fjarri lagi að hann hefði hlotið tveggja ára dóm í héraði og vísaði til eldri dómaframkvæmdar.

Ómar Örn Bjarnþórsson, verjandi Geirs Elí, sagði aðkomu umbjóðanda síns að málinu afar takmarkaða og að hún væri önnur og minni en annarra sakborninga í málinu. Hann hefði verið fenginn af Ólafi Ágústi til að veita aðstoð og ráðleggingar við kannabisræktunina sem hefði ekki verið að ganga nægilega vel.

Hann gagnrýndi það að Geir Elí væri í ákæru settur undir sama hatt og aðrir sakborningar í málinu, sem kæmi ekki heim og saman við gögn málsins. Þegar Geir Elí hefði komið að málinu hefði ræktun í Hjallanesi verið fullbúin.

Ómar taldi unnt að fullyrða að tveggja ára dómur væri einn þyngsti dómur sem maður hefði fengið fyrir kannabisræktun af slíkum toga. Krafðist hann þess að refsing yrði milduð og vísaði meðal annars til þess að Geir Elí hefði komið hreint fram við rannsókn málsins og játað skýlaust verknaðinn, hefði hreinan sakarferil og lýst yfir iðrun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert