Landspítalinn hefur dreift rúmlega 1.730 skömmtum af naloxón neyðarlyfinu frá 1. júlí í fyrra til heilbrigðisstofnana víða um land, lögregluembætta, aðila sem reka gistiskýli fyrir heimilislausa, Rauða krossins og fleiri.
Lyf á nefúðaformi sem inniheldur naloxón getur reynst lífsbjargandi sem fyrstu viðbrögð við ofskömmtun ópíóíða. Dæmi um efni sem innihalda ópíóíða eru heróín, metadon, fentanýl, oxýkódon, búprenorfín og morfín.
Naloxón er lyfseðilsskylt og var verklagið lengst af þannig að því var ávísað af lækni beint til sjúklings. Á liðnu ári var verklagi breytt með þeim hætti að læknar geta ávísað lyfinu til fyrirtækja eða stofnana sem þjónusta fólk sem glímir við ópíóíðafíkn og/eða aðstandenda þeirra.
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að breytt fyrirkomulag við afhendingu lyfsins hafi bætt til muna aðgengi að lyfinu um allt land. Er þetta einstaklingum að kostnaðarlausu þar sem heilbrigðisráðuneytið hefur greitt allan kostnað vegna lyfsins frá júlí í fyrra.
„Vísbendingar eru um að ofnotkun ópíóíða sé vaxandi vandamál hér á landi. Hefur ríkisstjórnin því samþykkt tillögur Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra um aðgerðir til að sporna við þessari óæskilegu þróun. Meðal aðgerðanna var aukin fjárveiting til þess að auka enn frekar dreifingu nefúðans,“ segir í tilkynningunni.
Þar kemur jafnframt far að víða erlendis hafi dregið úr dauðsföllum vegna ofneyslu ópíóða eftir að stjórnvöld juku aðgengi að Naloxón.
„Heilbrigðisráðuneytið hvetur viðbragðsaðila og aðra þá sem á einhvern hátt koma að þjónustu við einstaklinga með ópíóíðafíkn til að koma sér upp neyðarskömmtum svo unnt sé að veita neyðarmeðferð með lyfinu ef þörf krefur. Mikilvægt er þó að koma viðkomandi undir læknishendur eftir notkun þess til frekari meðferðar.“