Líklegast ekki fæðuskortur

Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands og doktor í líffræði.
Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands og doktor í líffræði. Samsett mynd

Forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands telur að kenningar um fæðuskort á meðal fugla á Vesturlandi séu næstum því úr myndinni. Ekki er útilokað að um sé að ræða eitthvað annað en fuglaflensu, en ekkert hefur verið staðfest. 

Mikið hefur borið á fugladauða en hundruð lunda hafa fundist dauð á vesturhluta landsins við strendur Faxaflóa. Enn liggur ekkert fyrir um orsökina er en fuglafræðingar líta stöðuna alvarlegum augum. 

Þarf að kanna betur

Brigitte Brugge, sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun, segir jafnframt að í apríl og byrjun maí hafi verið tilkynnt um fleiri dauðsföll en venjulega hjá ritum en ósvarað er hvað olli því. Ekki hefur tekist að greina fuglaflensu í sýnum úr þeim.

Öll sýni nema eitt sem tekin hafa verið á þessu ári hafa greinst neikvæð fyrir fuglaflensu. Brugge segir að kanna verði betur hvers vegna fuglarnir drápust og í framhaldinu hvernig sé hægt að bregðast við.

„Mjög sérkennilegt“

Erpur Snær Hansen, forstöðumaður  Náttúrustofu Suðurlands og doktor í líffræði, telur ólíklegt að kenningar um fæðuskort og veður eigi við.

Hann greinir frá því að þekkingarsveit í Sandgerði hafi kannað lundana og tekið sýni. Í ljós kom að lundarnir eru í fullum holdum og því heldur ólíklegt að um sé að ræða hordauða. „Maður kíkir á þá og þá finnur maður strax ef bringubeinið stendur upp úr. Þá eru þeir horaðir en það er ekki tilfellið,“ segir Erpur Snær.

Hann tekur fram að lundinn brenni miklu og ef hann hættir að éta megrast hann hratt. Þar að auki hefur ekki skort fæðu fyrir lundana á þessu svæði. Telur hann því líklegast að pest hafi verið að hrjá þá. „Fuglar drepast úr aldri og slysum en að sjá svona marga dauða á sama tíma á þessum árstíma er mjög sérkennilegt”.

Þarf að kryfja lundana

Erpur segir að taka þurfi sýni og kryfja lundana til að komast að því hvað olli þessu. Leita þurfi af öðrum vírusum og komast að því hvað þetta gæti mögulega verið. Spurður hvort einhverjar kenningar séu líklegri en aðrar telur Erpur að holdarfar fuglanna bendi til þess að um sé að ræða sjúkdóm sem gæti hafa smitast út frá ströndinni. Vitnar hann einnig í ritutilfellið sem bendi ótvírætt til þess að eitthvað óvenjulegt sé á seyði. Engar niðurstöður rannsókna hafi þó staðfest það en vænta megi þeirra á næstunni.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert