Óskar eftir upplýsingum í kjölfar leiðtogafundarins

Erlendu lögregluþjónunum var fyrst og fremst ætlað að starfa innan …
Erlendu lögregluþjónunum var fyrst og fremst ætlað að starfa innan svæðis sem lokað var fyrir almenningi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir upplýsingum og skýringum frá dómsmálaráðherra vegna veru vopnaðra og einkennisklæddra erlendra lögreglumanna í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins sem var haldinn dagana 16. og 17. maí í Reykjavík. 

Tæp­lega 100 er­lend­ir lög­reglu­menn frá Nor­egi, Dan­mörku og Finn­landi voru þá stadd­ir hér­lend­is. Bar stór hluti þeirra vopn.

Ætlað að starfa innan afmarkaðs svæðis

Í kjölfar frétta um viðveru erlendra lögregluþjóna í Reykjavík óskaði umboðsmaður eftir frekari upplýsinga um fyrirkomulagið frá ríkislögreglustjóra. 

Samkvæmt henni var erlendu lögregluþjónunum fyrst og fremst ætlað að starfa innan svæðis sem lokað var fyrir almenningi en þó þannig að krafta þeirra nyti einnig við á stærra svæði í miðborginni ef þörf kræfi. Ekki kom til þess samkvæmt svörum ríkislögreglustjóra og var henni ekki heldur kunnugt um að erlendu lögreglumennirnir hefðu haft afskipti af íslenskum ríkisborgurunum,“ segir á vef umboðsmanns Alþingis.

Telur umboðsmaður málið gefa tilefni til ákveðinna spurninga um hvernig ríkislögreglustjóri nýtir heimild sína samkvæmt lögreglulögum til þess að taka á móti erlendum lögreglumönnum og fela þeim lögregluvald hér á landi.

Stjórnvöld með framkvæmdarvaldið

Í bréfi umboðsmanns er minnt á að samkvæmt stjórnarskrá fara forseti og önnur stjórnvöld með framkvæmdarvald í landinu. Ekki fari á milli mála að meðferð lögregluvalds á íslensku yfirráðasvæði, ekki síst heimild lögreglu til að beita valdi við skyldustörf, falli þar undir. Skorður séu á því að hvaða marki hægt sé að kveða á um framsal stjórnarskrábundinna valdheimilda til erlendra aðila, þótt í framkvæmd hafi verið litið svo á að slíkt sé ekki útilokað að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Þá segir einnig að þegar litið sé til þessa og markmið lagaheimildar ríkislögreglustjóra sé ekki hægt að leggja til grundvallar að hann hafi ótakmarkaða heimild að þessu leyti.

Er því dómsmálaráðherra beðinn um að upplýsa hvort hann hafi skoðað að nýta heimild sína samkvæmt lögreglulögum til að setja nánari reglur um það hvenær og í hvaða tilgangi ríkislögreglustjóra sé heimilt að fela erlendum lögregluþjónum lögregluvald hér á landi. 

Orðalagið of víðtækt?

Spyr umboðsmaður ráðherra einnig hvort hann telji að orðalag lagaheimildarinnar kunni að vera of víðtækt en í þessu sambandi er bent á að það virðist ekki útiloka að erlendum lögreglumönnum séu falin hvers kyns lögreglustörf hér á landi, þ. á m. þau sem krefjast samskipta við almenning.

Að lokum óskar umboðsmaður eftir að ráðuneytið upplýsi, eftir atvikum með atbeina ríkislögreglustjóra, hvort litið hafi verið svo á að erlendu lögreglumennirnir sem hér voru við störf hafi borið sömu lagaskyldur og íslenskir og hvort gengið hafi verið út frá því að þeir féllu undir starfssvið nefndar um eftirlit með lögreglu.

Biður embættið um að svör og viðeigandi gögn berist fyrir 24. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert