Óskynsamlegt að taka verðtryggð lán af fólki

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, að loknum ríkisstjórnarfundi í gær.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, að loknum ríkisstjórnarfundi í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir erfitt að sjá skynsemi í að taka af fólki möguleikann á því að létta greiðslubyrði sína með því að taka verðtryggt lán.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði í samtali við mbl.is á dögunum að í hans huga komi vel til greina að banna verðtryggð lán til 40 ára, sem hann segir að veiti fólki falska öryggiskennd sem það fær oft í bakið við neikvæðar hagsveiflur.

Möguleiki að létta greiðslubyrðina

Bjarni segir í samtali við mbl.is að hann hafi lagt fram frumvarp á sínum tíma um að herða skilyrði fyrir veitingu slíkra lána og aldurstengja viðmiðin.

„Ég hef hins vegar alltaf haft ákveðnar efasemdir um að taka af fólki valfrelsi í þessum efnum. Það er skemmst frá því að segja að frumvarpið, eins og ég lagði það fyrir þingið, náði ekki fram að ganga.“

Fjármála- og efnahagsráðherra segir að aldrei hafi jafn hátt hlutfall húsnæðislána verið óverðtryggð, ýmist á breytilegum eða föstum vöxtum, á sama tíma og verðbólga sé í þeim hæðum sem nú mælist.

Segir hann þær aðstæður nokkuð sérstakar og að mjög margir finni fyrir aukinni greiðslubyrði sem muni miklu, sérstaklega ef miðað er við það tímabil þegar vextir fóru lægst.

„Þá er sá möguleiki að létta greiðslubyrðina með því að fara í verðtryggt lán. Mér þykir erfitt að sjá að það sé skynsamlegt að taka það af fólki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert