Aðeins 41 sækist eftir því að komast að í tannlæknisfræði við Háskóla Íslands í haust en umsækjendur þreyta nú í fyrsta sinn inntökupróf. Allt að 40 nemendum verður boðið að hefja nám í haust en í desember verða haldin samkeppnispróf og komast átta nemendur þá áfram.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands.
Í viðtali við Morgunblaðið í mars sagði Ellen Flosadóttir, deildarstjóri tannlæknadeildar, ríflega hundrað manns hafa sótt um í tannlæknisfræði á síðasta ári. Liggur því fyrir að umtalsvert færri reyna að komast að nú þegar inntökuprófið bætist við.
Þá hafa alls 238 skráð sig í inntökupróf í læknisfræði og 64 í sjúkraþjálfunarfræði. Prófið er haldið dagana 8. og 9. júní á háskólasvæðinu og verða 60 nemendur teknir inn í læknisfræði en 35 í sjúkraþjálfunarfræði.
Fjöldi þeirra sem sækja um í læknis- og sjúkraþjálfunarfræði lækkar einnig milli ára en í tilkynningu frá HÍ frá því í fyrra kemur fram að 295 hafi verið skráðir í inntökupróf í læknisfræði og 68 í sjúkraþjálfunarfræði.
Þeir sem sækja um í tannlæknisfræði þreyta sama inntökupróf og þeir sem sækja um í læknis- og sjúkraþjálfunarfræði.
Í tilkynningunni segir að inntökuprófið fari fram í nokkrum byggingum háskólans og að allir þreyti prófið í prófakerfinu Inspera. Geta þeir ýmist nýtt eigin tölvur eða tölvur sem HÍ lánar til próftöku.
Þetta er í annað sinn sem slíkt fyrirkomulag er viðhaft. Inntökuprófið tekur tvo daga líkt og áður og í því eru sex tveggja tíma próflotur.