Róstusöm tíð Aðalsteins í starfi

Aðalsteinn Leifsson hefur látið af störfum sem ríkissáttasemjari.
Aðalsteinn Leifsson hefur látið af störfum sem ríkissáttasemjari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tíð Aðalsteins Leifssonar í embætti Ríkissáttasemjara var róstusöm enda fjölmargar harðar kjaradeilur verið í samfélaginu á undanförnum árum. Aðalsteinn tilkynnti um afsögn sína í dag eftir að hafa sinnt embætti í um þrjú ár. 

Aðalsteinn tók við embættinu í febrúar árið 2020 en hann hafði verið aðstoðarríkissáttasemjari frá 2019. Kenndi hann meðal annars samningatækni við Háskólann í Reykjavík áður en hann var skipaður í embætti. 

Beint í djúpu laugina

Segja má að honum hafi strax verið hent í djúpu laugina þar sem fljótlega eftir embættistöku mátti hann m.a. glíma við milligöngu í málum hjúkrunarfræðinga og ríkisins og flugfreyja og Icelandair. 

Þær deilur enduðu þó með farsælum hætti án þess að til verkfalla kæmi. 

Aðalsteinn þykir gjarnan smekklegur til fara og hér má sjá hann í vetrarklæðnaði. 

Allt í hnút 

Ýmsar harðar deilur voru í brennidepli fjölmiðla á næstu árum en mestu átökin áttu þó eftir að láta á sér kræla síðla árs 2022 og í byrjun árs 2023. 

Það hófst vel þegar VR og SGS sömdu við Samtök atvinnulífsins í desember síðastliðnum. 

Deilur fóru hins vegar að harðna þegar komið var að samningalotu Eflingar og SA. 

Segja má að illu blóði hafi verið hleypt í viðræðurnar þegar Aðalsteinn nýtti heimild sína til að leggja fram miðlunartillögu. Fannst Halldóri Benjamíni Þorbergssyni, framkvæmdastjóra SA og Sólveigu Önnu Jónsdóttur formanni Eflingar ekki vera fullreynt hvort samningar næðust þegar kom að útspili Aðalsteins. 

Miðstjórn Eflingar lýsti yfir vantrausti á Aðalstein í kjölfarið.

Efling neitaði að leggja fram félagaskrá til að greiða atkvæði um miðlunartillögunnar og leitaði Aðalsteinn þá til Héraðsdóms Reykjavíkur til að fá úrlausn málsins. 

Eftir áfrýjun dóms í Héraðsdómi Reykjavíkur féll úrskurður Eflingu í hag í Landsrétti og í framhaldinu ákvað Aðalsteinn að stíga til hliðar. 

Við embættinu tók tímabundið Ástráður Haraldsson. 

Miðlunartillaga hans var samþykkt. 

Eftir að deilu SA og Eflingar lauk voru uppi raddir um óstyrka stöðu Aðalsteins í starfi. 

Í dag tilkynnti Aðalsteinn svo um það að hann hefði ákveðið að segja upp stöðu sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert