Kópavogsbær áréttar að samningsumboð Kópavogsbæjar í kjaraviðræðum við BSRB liggi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þar af leiðandi hefur bæjarstjóri Kópavogs ekki beina aðkomu að kjaraviðræðum né áhrif á framgöngu þeirra.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ, en hún er send í kjölfar þess að mikill fjölmenni ruddist inn á bæjarskrifstofu eftir samstöðufund á Hamraborg í Kópavogi nú fyrir hádegi. Vísir greindi fyrst frá þeim atburði.
Foreldrar í Kópavogi mættu á samstöðufund fyrir utan bæjarskrifstofur Kópavogsbæjar í dag til að sýna stuðning sinn við leikskólastarfsmenn í röðum BSRB.
Á Facebook viðburði fundarins segir að skipuleggjendum þyki lítill hugur í bæjarstjóra að leggja fram tillögur til lausnar við verkfallinu.
„Við leggjum því til að við foreldrar og forráðamenn barna í leikskólum Kópavogs mætum með börnin okkar fyrir utan bæjarskrifstofur og sýnum þannig fólkinu sem hugsar um börnin okkar stuðning!“
900 leikskólastarfsmenn í 11 sveitarfélögum hófu verkfall í vikunni, en aðgerðirnar eru liður í kjarabaráttu BSRB við SNS.
Margir foreldrar mættu með ung börn á leikskólaaldri, en verkfallið hefur áhrif á um 60 leikskóla og margir því tilneyddir að vera heima með börnin. Leikskólastarfsmenn í verkfalli létu sig ekki síður vanta á staðinn og var spiluð hávær barnatónlist, dansað og leikið á meðan fundinum stóð.
Þegar ekkert örlaði á viðbrögðum frá starfsmönnum bæjarskrifstofunnar tók fjöldi fólks sig til og arkaði inn á bæjarskrifstofuna til að láta á sér bera.
Í tilkynningu bæjarins kemur fram að samningsumboð Kópavogsbæjar í kjaraviðræðum við BSRB liggur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þar af leiðandi hefur Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, ekki beina aðkomu að kjaraviðræðum né áhrif á framgöngu þeirra.
Bærinn kveðst vona að samningar náist sem fyrst.
Tilkynninguna í heild má finna hér:
Vegna kjaradeilna bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB við sveitarfélög í landinu vill Kópavogsbær koma eftirfarandi á framfæri:
Kópavogsbær áréttar að samningsumboð bæjarins liggur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga í kjaraviðræðum bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB við sveitarfélög í landinu.
Sveitarfélög, Kópavogur þar með talinn, hefur falið Sambandinu fullnaðarumboð til kjarasamningagerðar við viðsemjendur sína.
Bæjarstjóri Kópavogs hefur þannig ekki beina aðkomu að kjaraviðræðum og ekki áhrif á framgöngu þeirra.
Kópavogsbær hefur skilning á þeim áhrifum sem kjaradeilan hefur á starfsfólk, foreldra og börn og vonast til þess að samningar náist sem fyrst.
Nánari upplýsingar um kjaraviðræður Sambandsins við BSRB veita framkvæmdastjóri og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.