Kyrrt og engra skjálfta verður vart. Þetta er í stuttu máli sagt staðan um þessar mundir á Suðurlandi; svæði sem þekkt er fyrir jarðhræringar. Síritandi mælar Veðurstofu Íslands segja sína sögu – meðal annars þá að víbrar eru víðast hvar meiri nú en fyrir austan fjall. Margir Sunnlendingar hafa rifjað upp síðustu daga, í frásögnum á félagsmiðlum, að síðastliðinn mánudag, voru liðin rétt og slétt fimmtán ár frá Suðurlandsskjálftanum mikla.
Það var 29. maí 2008 klukkan 15:46 sem allt fór á hreyfingu, ef svo mætti segja. Skjálftarnir voru tveir og er talið að sá fyrri, sem átti upptök sín við Ingólfsfjall, hafi komið þeim síðari af stað en rætur hans voru nærri Hveragerði. Styrkur skjálftanna mældist 6,3 og mest urðu áhrif þeirra í Hveragerði, Ölfusi, Hveragerði og í Flóanum.
Í Hveragerði var allt á tjá og tundri eftir jarðskjálftana. Tilkynningar bárust um tjón eða jafnvel eyðileggingu alls 820 bygginga í bænum, sem nærri lét að væri hvert einasta hús. Í Ölfusi urðu skemmdir víða, svo sem á sveitabæjum, og í Árborg urðu sömuleiðis víða þungar búsifjar. 12 íbúðarhús eyðilögðust á Selfossi og sex á Eyrarbakka. Á þessum slóðum skemmdust einnig margar byggingar, gjarnan vegna þess á hve veiku undirlagi þær voru byggðar.
Fljótlega eftir skjálftana hófst endurreisnarstarf. Fjöldi húsa var rústir einar sem moka mátti í burtu, svo sem stór ullarþvottastöð í Hveragerði. Einnig fóru garðyrkjustöðvarnar þar í bæ mjög illa. Öll mál þessu viðvíkjandi fóru til Viðlagatryggingar, sem nú heitir Náttúruhamfaratrygging Íslands. Frá því um sumarið 2008 fram til ársloka 2011 greiddi Viðlagatrygging út bætur vegna skjálftanna fyrir vel á fimmtánda milljarð króna – séu upphæðirnar framreiknaðar til gengis og verðlags dagsins í dag.
Víða fékk umhverfi á skjálftaslóðum nýjan svip eftir jarðskjálftana, svo sem að Reykjum í Ölfusi skammt fyrir ofan garðyrkjuskólann þar. Í fjallshlíð þar spruttu fram bullandi hverir svo í öllu sauð lengi á eftir. Í austanverðu Ingólfsfjalli féllu fram heilu björgin og við götur, til dæmis á Selfossi, þar sem hús eyðilögðust, komu skörð í götumyndir. Stóra málið er hins vegar að engan sakaði í þessum miklu hamförum og líf fólks á svæðinu leitaði fljótt til jafnvægis að nýju.
Meðal jarðvísindamanna eru skjálftarnir í maí 2008 stundum nefndir Ölfushviðan. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir að þau umbrot og svo skjálftana sem urðu á Suðurlandi í júní árið 2000 ætti að skoða heildstætt. Líklegt megi teljast að þeir hafi ekki dugað til að losa nema um helming af þeirri spennu sem myndast hafi í jörð á þessu svæði, frá stórskjálftum sem þarna urðu árin 1896 og 1912. Suðurlandið sé þarna á skilum jarðfleka sem færist til um 1,5 til 2 sentimetra á ári. Með flekaskilunum myndist kraftur í jörðu sem leysi út í skjálftum – en slíkir eru óútreiknanlegir eins og margt annað þegar náttúruöflin eru annars vegar.