Taka þarf salernismál fastari tökum

Um 200 skipakomur eru áætlaðar frá maí og fram í …
Um 200 skipakomur eru áætlaðar frá maí og fram í október. mbl.is/Sigurður Bogi

Taka þarf salernismál skemmtiskipafarþega fastari tökum með varanlegum lausnum á Ísafirði, að mati bæjarráðs.

Í minnisblaði í fundargerð bæjarráðs segir að um 200 skipakomur séu áætlaðar frá maí til október í ár en stærsti hluti skipanna komi frá lok maí til loka september. Því sé nauðsynlegt að ákveða fyrirkomulag sumarsins. Samningur var gerður til tímabils þessa árs. Meta átti í lok árs ávinning af samningnum.

Fram að þessu hefur almenningssalernisaðstaða fyrir ferðamenn verið við Byggðasafnið og í Edinborgarhúsi. Auk þess hefur samningur verið við Ísafjarðarkirkju um afnot þar, svo og horft til aukins álags á Safnahús.

Frístandandi almenningssalerniseiningar 

Felur bæjarráð bæjarstjóra að framkvæma verðfyrirspurn á samningi til þriggja til fimm ára um aðgang og viðhald salerna í miðbæ og efri bæ fyrir farþegana, auk þess sem málið hefur verið sent til afgreiðslu í hafnarstjórn.

Þá felur bæjarráð bæjarstjóra samhliða að hefja undirbúning að byggingu tveggja frístandandi almenningssalerniseininga í miðbæ og efri bæ, og leggja fyrir skipulags- og mannvirkjanefnd skipulag og samþykkt framkvæmda til afgreiðslu, að því er segir í fundargerð bæjarráðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert