„Takið ykkur saman og semjið við okkur“

Það var vel mætt á samstöðufund foreldra með leikskólastarfsmönnum sem …
Það var vel mætt á samstöðufund foreldra með leikskólastarfsmönnum sem fram fór fyrir utan bæjarskrifsstofur Kópavogs í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Takið ykkur saman og semjið við okkur,“ voru skilaboðin frá einum leikskólastarfsmannanna sem mætti á fjölmennan samstöðufund vegna verkfalla á leikskólum fyrr í dag. Verkföllin eru liður í kjarabaráttu BSRB við Samband íslenskra sveitarfélaga. 

Margt var um manninn fyrir utan bæjarskrifstofur Kópavogs í hádeginu þar sem fundurinn var haldinn en mbl.is náði tali af nokkrum starfsmönnum og foreldrum leikskólabarna í Kópavogi sem lagt höfðu leið sína í Hamraborgina.

Foreldrar standi með starfsmönnum leikskóla

„Verkföllin hafa umtalsverð áhrif á fjölskyldur leikskólabarna í Kópavogi, bæði á foreldrana ogvinnuna sem þau stunda en líka á börnin sem eiga ekki þetta örugga athvarf í leikskólanum sem þau eiga  geta treyst á,“ segir Karen Rúnarsdóttir sem mætti á fundinn ásamt börnum sínum. 

Karen er áheyrnarfulltrúi SAMLEIK, en það eru samtök foreldra leikskólabarna í Kópavogi. Hún segir SAMLEIK leggja áherslu á að foreldrar standi með starfsmönnum leikskóla, sama hvaða starfi þeir gegni innan leikskólans.

„Okkar hagsmunir eru líka fólgnir í því að starfsmönnum líði vel, að þeir fái góð laun og að kjör þeirra séu að öllu leyti góð,“ bætir Karen við. Þá skorar hún á alla sem að kjaradeilunni koma að setjast við samningaborðið og leysa sín mál sem allra fyrst.

Karen Rúnarsdóttir er áheyrnarfulltrúi SAMLEIK, samtaka foreldra leikskólabarna í Kópavogi.
Karen Rúnarsdóttir er áheyrnarfulltrúi SAMLEIK, samtaka foreldra leikskólabarna í Kópavogi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gott að geta verið saman í þessu 

Rakel Eyþórsdóttir er einstæð móðir sem vinnur á leikskóla í Kópavogi. Rakel segir það ótrúlega gott að finna fyrir þeirri samstöðu sem ríki meðal foreldra og leikskólastarfsmanna í Kópavogi. Hún segir leikskólastarfsmenn vinna mikilvægt starf fyrir börnin sem um leið hjálpi foreldrum að komast til vinnu. 

„Við viljum bara geta fengið sömu laun fyrir sömu störf,“ segir Rakel sem vonar að hlutirnir fari að skýrast á næstunni.   

„Þau skipta okkur máli“

„Við verðum að sýna þessu mikilvæga fólki að þau skipti okkur máli,“ segir Klara Dögg Jónsdóttir sem mætti á fundinn til að sýna samstöðu með leikskólastarfsmönnum. Klara er móðir barns sem hefur enn ekki fengið leikskólapláss og bendir fátt til þess að það breytist á næstunni.

Klara segir verkföll leikskólastarfsmanna hafa haft mikil áhrif á fólkið í kringum sig og vonar að niðurstaða fáist í kjaradeilur fljótlega.

Klara Dögg Jónsdóttir telur það vera mikilvægt að styðja við …
Klara Dögg Jónsdóttir telur það vera mikilvægt að styðja við bakið á leikskólastarfsmönnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vill sjá fleiri fylgja eftir

Þórdís Steinarsdóttir er ein þeirra kvenna sem standa fyrir samstöðufundi dagsins. Eftir að Þórdís hafði hvatt foreldrana á leikskóla barnsins síns til þess að senda Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra Kópavogs bréf, í tilraun til þess að koma hreyfingu á hlutina, var hún beðin um að stofna viðburð á Facebook til þess að hvetja foreldra og leikskólastarfsmenn til samstöðu. 

„Leikskólastarfsmenn eru með börnin okkar í höndunum allan daginn. Við verðum að standa saman,“ segir Þórdís sem ákvað að sýna stuðning sinn í verki með því að efna til samstöðufundar.  

Þórdís Steinarsdóttir er ein skipuleggjenda samstöðufundarins.
Þórdís Steinarsdóttir er ein skipuleggjenda samstöðufundarins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eiga rétt á að geta lifað á laununum sínum

„Við eigum rétt á því að geta lifað á laununum okkar eins og aðrir í þessu þjóðfélagi,“ segir Bryndís Richter, starfsmaður á leikskóla í Kópavogi. Bryndís er ánægð með samstöðuna sem myndast hefur milli foreldra og leikskólastarfsmenn og segir gott að finna fyrir því að leikskólastarfsmenn séu að gera rétt. 

„Takið ykkur saman og semjið við okkur,“ segir Bryndís og vísar þá til Kópavogsbæjar, en enginn frá bæjarskrifstofu Kópavogs lagði leið sína á fundinn í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert