Slökkviliðsmenn verða héðan í frá tryggðir fyrir 19 tegundum krabbameina. Um nýja tegund sjúkdómatryggingar er að ræða en í dag skrifaði Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna undir samning við Tryggja ehf. um viðbótartryggingar fyrir slökkviliðsmenn.
Nýja krabbameinstryggingin er byggð á þeirri vernd sem slökkviliðsmenn í Kanada njóta samkvæmt lögum þar í landi en aukin hætta starfstengdra krabbameina hefur í rúman áratug verið baráttumál slökkviliða víða í heiminum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.
Slökkviliðsmenn hjá LSS hafa frá árinu 2016 verið með viðbótartryggingu verði þeir fyrir slysi í starfi sem leiðir til varanlegrar örorku. Til viðbótar við krabbameinstrygginguna er tryggingaverndin vegna varanlegrar örorku og dánarbóta aukin verulega í nýja samkomulaginu við Tryggja, auk þess sem útfararstyrkur bætist við.
„Undanfarin ár hefur mikil vitundarvakning orðið meðal slökkviliðsmanna um mengunarhættuna sem hefur leitt til breytinga á verklagi og framkvæmd slökkvistarfa. Til að gerast slökkviliðsmaður þarf nær fullkomna heilsu, líkamlegar og andlegar kröfur til starfsins eru miklar og það tekur langan tíma að öðlast þá færni og reynslu til að starfa í framlínu slökkvistarfa, flestir sem starfa í þessum geira eru hugsjónarfólk með brennandi áhuga og metnað fyrir starfinu.
Okkar hlutverk sem stéttarfélag þeirra er að reyna eftir fremsta megni að skapa þeim öruggt og farsælt vinnuumhverfi, með kaupum á þessari nýju tryggingu erum við að taka enn eitt skrefið í þá átt,“ er meðal annars haft eftir Bjarna Ingimarssyni, formanni LSS, í tilkynningunni.