Vilja launamálið beint fyrir Hæstarétt

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjármála- og efnahagsráðuneytið mun senda málskotsbeiðni beint til Hæstaréttar vegna launamáls héraðsdómara sem hafði betur gegn ríkinu á dögunum, en málið snertir launamál 260 af æðstu embættismanna landsins sem ráðuneytið segir hafa fengið of há laun greidd.

Elva Björk Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins, staðfestir bæði við mbl.is að áfrýja eigi málinu og að leita eigi beint til Hæstaréttar með það í stað þess að áfrýja til Landsréttar. Rúv hafði áður greint frá málinu.

Heimild aðeins veitt fyrir fordæmisgefandi mál

Samkvæmt lögum er heimilt að óska beint eftir áfrýjun til Hæstaréttar, en það er þó háð skilyrðum. „Slíkt leyfi skal ekki veitt nema niðurstaða málsins geti haft fordæmisgildi, haft almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna eða haft verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti,“ segir í lögum um meðferð einkamála. Hafni Hæstiréttur að taka málið fyrir er þó enn í boði að áfrýja málinu til Landsréttar.

Í júlí í fyrra greindi fjársýslan frá ofgreiðslunum sem námu um 105 milljónum samtals og steig Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fram og sagði málið einfalt. „Það snýst um að útgreidd laun voru hærri en þau laun sem greiða átti lögum samkvæmt. Það er óþolandi að þetta hafi gerst en við því verður að bregðast.“

Nær til forseta, þingmanna, dómara og fleiri toppa

Krafði ráðuneytið embættismennina um endurgreiðslu sem átti að fara fram í áföngum á tólf mánuðum. Meðal þeirra sem fengu of­greidd laun voru for­set­inn, ráðherr­ar, þing­menn, dóm­ar­ar, sak­sókn­ar­ar, lög­reglu­stjór­ar, ráðuneyt­is­stjór­ar, seðlabanka­stjóri, aðstoðarseðlabanka­stjóri og rík­is­sátta­semj­ari. 

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari ákvað hins vegar að láta reyna á endurgreiðsluna og höfðaði mál gegn íslenska ríkinu vegna kröfunnar. Þar sem allir héraðsdómarar töldust vanhæfir í málinu voru settir dómarar í málinu þau Gunnar Þór Pétursson, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, Berglind Svavarsdóttir, lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur, og Sindri M. Stephensen, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Breytir engu um sannfæringu Bjarna

Í dómn­um kem­ur fram að héraðsdóm­ari hafi kraf­ist ógild­ing­ar á þrem­ur ákvörðunum ís­lenska rík­is­ins er lutu að breyttri út­reikn­ingsaðferð launa­breyt­inga og end­ur­kröfu of­greiddra launa. Dóm­ur­inn taldi ákv­arðan­irn­ar vera stjórn­valdsákv­arðanir en ekki hefði verið gætt málsmeðferðarreglna lag­anna. Þá hefði stefnda hvorki verið gert viðvart um að málið væri til meðferðar né notið and­mæla­rétt­ar. Talið var að um­rædd­ir ann­mark­ar væru veru­leg­ir og af þeim sök­um var fall­ist á kröf­ur stefn­anda um ógild­ingu um­ræddra ákv­arðana.

Í skriflegu svari til mbl.is eftir að dómurinn féll sagði Bjarni að dómurinn breytti engu um sannfæringu hans um hvað væri rétt í málinu. „Ég hef ein­falda grund­vall­araf­stöðu í þessu máli. Hún snýst um að ef í ljós kem­ur að fólk hafi fengið of­greitt úr sam­eig­in­leg­um sjóðum, þá sé rétt og eðli­legt að því sé skilað sem of­greitt var. Það gild­ir um op­in­bera starfs­menn rétt eins og alla aðra. Niðurstaðan breyt­ir engu um sann­fær­ingu mína hvað þetta varðar,“ sagði hann í svarinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert