Aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum var samþykkt á Alþingi í dag. Áætlunin nær til ársins 2027 og felur í sér 27 aðgerðir sem á að hrinda í framkvæmd samkvæmt stefnu Íslands í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 sem var samþykkt á Alþingi í fyrra.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu Stjórnarráðsins.
Þingsályktunin um aðgerðaráætlunina var samþykkt einróma með öllum greiddum atkvæða þingmanna en hún byggist á vinnu samráðshóps helstu hagaðila í geðheilbrigðismálum á Íslandi.
Samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu Stjórnarráðsins er meginmarkmið aðgerðaráætlunarinnar að auka og bæta geðheilbrigðisþjónustu til muna og stuðla að forvörnum. Verður þetta gert með því að auka forvarnir og snemmtæk úrræði sem verða grundvöllur að geðheilbrigði einstaklinga.
Jafnframt er sótt eftir því að heildræn geðheilbrigðisþjónusta verði samþætt og byggð á bestu mögulegu gagnreyndu meðferðum en það sama gildir um hæfingu og endurhæfingu. Þá er stefnt að því að notendasamráð og notendamiðuð þjónusta verði möguleg á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu.
Að auki er fyrirhugað að efla nýsköpun, vísindi og þróun innan málaflokksins sem leiði þá til betri geðheilbrigðisþjónustu og bætts aðgengis.
Í tilkynningunni kemur fram að við val á aðgerðum var haft að leiðarljósi að þær væru skýrar og raunhæfar í framkvæmd.
„Sérstaklega er þar hugað að snemmtækum úrræðum. Einnig eru lagðar til skýringar á helstu leiðum notenda í gegnum kerfið með áherslu á að fækka gráum svæðum við veitingu þjónustu,“ segir í tilkynningunni.