Eðlilegt að það sama gangi yfir alla

Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB í Karphúsinu í dag.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB í Karphúsinu í dag. mbl.is/Eyþór

„Það er alltaf gott þegar það er samtal í gangi og við göngum alltaf bjartsýn til samningafunda,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, en viðræður milli BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) hófust að nýju í Karphúsinu rétt í þessu.

Tveir sáttasemjarar, tveir fulltrúar fyrir hönd BSRB og tveir fulltrúar fyrir hönd SNS sitja fundinn, en kallað verður til samninganefndar ef viðræðum miðar áfram.

Sonja er ein þeirra sem sitja fundinn fyrir hönd BSRB, en Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður SNS, verður ekki viðstödd.

Telur ekki að BSRB sé að láta af kröfum

„Við vorum frekar lengi í gær og þokuðumst aðeins nær hvort öðru, en við eigum eitthvað eftir,“ segir Sonja í samtali við mbl.is.

Aðspurð kveðst hún ekki telja að BSRB sé að láta af neinum kröfum, þrátt fyrir að kjaraviðræður gangi vel. 

„Við höfum verið mjög skýr með okkar kröfur og sömuleiðis hvað við gætum gefið eftir. Þetta snýst auðvitað alltaf um það að við gerum kjarasamninga, sem fara síðan í atkvæðagreiðslu hjá okkar fólki og það þarf þá að samþykkja þá eða fella þá.“

Sonja Ýr telur ekki að BSRB hafi látið af kröfum.
Sonja Ýr telur ekki að BSRB hafi látið af kröfum. mbl.is/Eyþór

Öll þurft að lúta launaþaki

Spurð hvort launahækkanir ráðamanna, sem taka gildi 1. júlí og hafa ekkert launaþak, hafi áhrif á viðræður segir Sonja að vissulega væri eðlilegast ef það sama gengi yfir alla. 

„Í þessum kjarasamningum sem við höfum verið að gera núna, er einmitt ákveðið launaþak og við höfum öll þurft að lúta því í kjarasamningsgerðinni. Þá teljum við mjög eðlilegt að það sama gangi yfir alla.

Það var auðvitað verið að horfa til þess að það ætti að gera hóflega skammtímakjarasamninga og þess vegna finnst mér eðlilegt að þau taki tillit til þess og breyti sínum ákvörðunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert