Engir peningar vegna meintrar sölu fíkniefna

Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Guðlaugs Agnars Guðmundssonar, og Jón Magnússon, …
Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Guðlaugs Agnars Guðmundssonar, og Jón Magnússon, verjandi Ólafs Ágústs Hraundal. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Guðlaugs Agnars Guðmundssonar, segir ekkert í gögnum saltdreifaramálsins sanna svo að yfir skynsamlegan vafa sé hafið að Guðlaugur Agnar hafi komið að kaupum á saltdreifaranum eða vörslu hans í Hjallanesi.

Þetta er meðal þess sem fram kom í málflutningsræðu Sigurðar fyrir Landsrétti í dag. Vísaði hann til þess að engin fíkniefni hefðu verið tekin við handtöku Guðlaugs Agnars, engir peningar fundist eða verið lagt hald á vegna meintrar sölu fíkniefna.

Guðlaugur Agnar var dæmdur í tíu ára fangelsi í héraðsdómi fyrir að hafa, ásamt Guðjóni Sigurðssyni og Halldóri Margeiri Ólafssyni, staðið að inn­flutn­ingi á salt­dreifara frá Hollandi til Íslands, sem í voru faldir 53 lítrar af amfetamínvökva, í félagi með með tveim­ur óþekkt­um er­lend­um aðilum. Í sam­vinnu við óþekkt­an ís­lensk­an aðila fjar­lægðu þeir am­feta­mín­vökv­ann úr salt­dreif­ar­an­um og fram­leiddu allt að 117,5 kg af am­feta­míni í sölu og dreif­ing­ar­skyni.

Engin sönnunargögn um samskipti

Sigurður tók fram að engin sönnunargögn væru um samskipti hans við aðra sakborninga.

Fram hefur komið að rík­is­lög­reglu­stjóra hafi árið 2020 borist gögn og upp­lýs­ing­ar um sam­skipti manna á dul­kóðaða sam­skipta­for­rit­inu EncroChat. Grein­ing­ar­vinna hófst á þeim not­end­um sem áttu í sam­skipt­um um salt­dreifar­ann og fram­leiðslu fíkni­efn­anna. Það var niðurstaða lög­reglu að not­and­inn Resi­dentk­iller væri Hall­dór Mar­geir og að not­and­inn Nuc­lear­fork væri Guðlaug­ur Agn­ar. 

Fram kom í máli saksóknara í gær að notendurnir Nuclearfork og Residentkiller hefðu átt í samskiptum um saltdreifarann og að Residentkiller hefði sent Nuclearfork ljósmynd af saltdreifaranum í gegnum EncroChat.

Fæli ekki í sér sök

Þá tók saksóknari fram að Guðlaugur Agnar hefði neitað að tjá sig við lög­reglu og eng­an aðgang veitt að læst­um raf­tækj­um sín­um, sem lög­regla lagði hald á.

Sigurður benti hins vegar á að það að Guðlaugur Agnar hefði nýtt sér lögboðinn þagnarrétt sinn og neitað að veita upplýsingar um aðgangsorð að símum og tölvum fæli ekki í sér að hann væri sekur.

Sigurður krafðist þess að lokum að Guðlaugur Agnar yrði sýknaður af öllum ákæruliðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert