Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Guðlaugs Agnars Guðmundssonar, segir ekkert í gögnum saltdreifaramálsins sanna svo að yfir skynsamlegan vafa sé hafið að Guðlaugur Agnar hafi komið að kaupum á saltdreifaranum eða vörslu hans í Hjallanesi.
Þetta er meðal þess sem fram kom í málflutningsræðu Sigurðar fyrir Landsrétti í dag. Vísaði hann til þess að engin fíkniefni hefðu verið tekin við handtöku Guðlaugs Agnars, engir peningar fundist eða verið lagt hald á vegna meintrar sölu fíkniefna.
Guðlaugur Agnar var dæmdur í tíu ára fangelsi í héraðsdómi fyrir að hafa, ásamt Guðjóni Sigurðssyni og Halldóri Margeiri Ólafssyni, staðið að innflutningi á saltdreifara frá Hollandi til Íslands, sem í voru faldir 53 lítrar af amfetamínvökva, í félagi með með tveimur óþekktum erlendum aðilum. Í samvinnu við óþekktan íslenskan aðila fjarlægðu þeir amfetamínvökvann úr saltdreifaranum og framleiddu allt að 117,5 kg af amfetamíni í sölu og dreifingarskyni.
Sigurður tók fram að engin sönnunargögn væru um samskipti hans við aðra sakborninga.
Fram hefur komið að ríkislögreglustjóra hafi árið 2020 borist gögn og upplýsingar um samskipti manna á dulkóðaða samskiptaforritinu EncroChat. Greiningarvinna hófst á þeim notendum sem áttu í samskiptum um saltdreifarann og framleiðslu fíkniefnanna. Það var niðurstaða lögreglu að notandinn Residentkiller væri Halldór Margeir og að notandinn Nuclearfork væri Guðlaugur Agnar.
Fram kom í máli saksóknara í gær að notendurnir Nuclearfork og Residentkiller hefðu átt í samskiptum um saltdreifarann og að Residentkiller hefði sent Nuclearfork ljósmynd af saltdreifaranum í gegnum EncroChat.
Þá tók saksóknari fram að Guðlaugur Agnar hefði neitað að tjá sig við lögreglu og engan aðgang veitt að læstum raftækjum sínum, sem lögregla lagði hald á.
Sigurður benti hins vegar á að það að Guðlaugur Agnar hefði nýtt sér lögboðinn þagnarrétt sinn og neitað að veita upplýsingar um aðgangsorð að símum og tölvum fæli ekki í sér að hann væri sekur.
Sigurður krafðist þess að lokum að Guðlaugur Agnar yrði sýknaður af öllum ákæruliðum.