Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS), segir fund í gær á milli forystumanna í BSRB og SNS hafa gengið betur en fólk hafi þorað að vona. Boðað hefur verið til annars fundar klukkan 13 í dag.
„Við hjá Sambandinu erum að reyna að teygja okkur alveg eins langt og við getum og viljum auðvitað að fólk finni fyrir ríkum samningsvilja, því það skiptir okkur auðvitað máli að starfsfólk okkar sé ánægt“ segir Heiða.
Í samtali við mbl.is segir hún alltaf erfitt þegar deilan sé komin svo langt og að viss atriði séu vissulega snúin, en að henni þyki samningaviðræður hafa þokast áfram í gær og auðveldara að ná saman en áður.
„Mér finnst þetta líka bara mikilvægt, þetta er starfsfólkið okkar. Það er auðvitað alltaf áfall fyrir vinnuveitendur, eins og sveitarfélögin, að deila við starfsfólkið sitt og við viljum bara ekki gera það. Við viljum bara ná sátt og samningum við okkar starfsfólk,“ segir Heiða.
„Svo er maður ekki alltaf sammála um kaup og kjör, en það er alveg eðlilegt, og þá bara þarf að leysa það.“
Hún tekur undir orð Sonju Ýrar Þorbergsdóttur, formanns BSRB, og kveðst vona að fundurinn verði langur, því til þess að semja þurfi að sitja lengur.
„Bæði mitt fólk og fólkið frá BSRB kann þetta og er sérfræðingar í að ná samningum. Ég held að ef við setjumst yfir þetta og ræðum sameiginlega niðurstöðu, þá getum við saman.“