23,5 stiga hiti mældist á Hallormsstað fyrir austan í dag og er þetta mesti hitinn á landinu það sem af er þessu ári.
Þetta staðfestir Marcel de Vries, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Hann reiknar með svipuðu veðri á landinu næstu daga. Skýjað verður á vestanverðu landinu en bjart og hlýtt á Austur- og Suðausturlandi. Í vestan- og norðvestanátt býst hann jafnframt við miklum hlýindum suður af Vatnajökli við Skaftafell.
Hitastigið á Austurlandi gæti farið nokkuð niður ef ský draga fyrir sólu en hlýjast verður engu að síður í landshlutanum fram yfir helgi.