Helgi Andri Jónsson, stofnandi og forstjóri SalesCloud, hefur sagt upp stöfum hjá fyrirtækinu sem forstjóri og tæknistjóri og kveður þar með fyrirtækið samstundis eftir ferðalag sem nær yfir meira en áratug.
Ekki nóg með það heldur kveðst Helgi ætla að setja fjölskylduna í fyrsta sæti með starfslokunum og biður hann um hönd kærustu sinnar í lok tilkynningarinnar.
„Til lífsförunauts míns Kollu sem hefur alltaf verið kletturinn minn og alls engu síður í þessu ferðalagi mínu tengt vinnu. Takk fyrir allt elskan mín. Og þig langar mig að spyrja – Viltu giftast mér?“ Segir í lok tilkynningarinnar.
Helgi segir síðasta ár hafa verið krefjandi og ekki aðeins á atvinnusviðinu heldur frekar á því persónulega.
„Á þeim tíma var ég að fagna því að verða pabbi í fyrsta skipti og að læra inn á allt það yndislega og stundum erfiða sem því hlutverki fylgir. Að vera orðinn foreldri. Það ert stórt. Mig langar að þakka rekstrarstjóra SalesCloud sem skilaði alltaf frábærri vinnu og ég gat treyst á hennar stuðning og traust.“
Uppsögn Helga tekur strax gildi en hann hefur stýrt fyrirtækinu frá upphafi starfseminnar árið 2012.
„SalesCloud hefur náð að hrista verulega upp í íslenska markaðnum og ryðja sér til rúms í geira sölulausna og það fyllir mig gríðarlegu stolti. Fyrirtækið er nú mikilvægur hlekkur í verslun í íslensku samfélagi og vinnur með yfir eina milljón greiðslna í mánuði hverjum,“ segir í tilkynningunni.
Að sögn Helga hugsar hann núna við starfslok hvað mest til seiglu starfsfólksins á meðan kórónuveirufaraldurinn gekk yfir. Að hans mati var það mjög markandi tímabil fyrir fyrirtækið og hugsar hann til þess með hlýjum hug hvernig þau fundu út úr fordæmalausum áskorunum og sýndu fram á skuldbindingu við að styðja viðskiptavini á erfiðum tímum.
„Kjarni velgengninnar er svo starfsfólk SalesCloud og hefur seigla þeirra og hlýja, líka á erfiðum stundum, verið ótrúleg. Þeirra framlag er ómetanlegt og ég er verulega stoltur af því sem við náðum að gera saman.
Á tíma mínum sem forstjóri hef ég fylgt minni staðföstu trú að viðskiptavinurinn sé alltaf í fyrsta sæti og það hefur verið sýnin á bakvið hverja einustu ákvörðun sem ég hef tekið. Ég hef ekki hækkað verð til viðskiptavina okkar frá því að COVID-19 faraldurinn hófst og það þrátt fyrir að þess hafi verið óskað í fjölda tilfella. Ég er stoltur af því að mín hollusta lá alltaf hjá viðskiptavinum SalesCloud.“
Þá vill Helgi jafnframt þakka viðskiptavinum sínum fyrir stuðninginn og samstarfið í gegnum árin og segir viðskiptavinina vera besta sölufólk fyrirtækisins.