Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair sagði á morgunverðarfundi Kompanís, viðskiptaklúbbs Morgunblaðsins og mbl.is, í morgun, að mikilvægt sé að stýra álagi á ferðamannastaði á Íslandi með betri hætti.
Taka þurfi upp gjaldtöku í auknum mæli í stað þess að heimta komugjald af ferðamönnum við komuna til landsins.
„Ferðaþjónustan er mikilvægasta útflutningsgrein landsins og við verðum að vanda okkur til að vöxturinn verði sjálfbær,“ sagði Bogi.
Hann sagði það ekki ganga upp til lengdar lunginn af ferðamönnum færi einungis um suðvesturhorn landsins í júlí og ágúst.
„Ferðamenn verða að fara meira um landið og það er mjög mikilvægt að koma upp álagsstýringu. Við höfum talað fyrir því mjög lengi. Ferðaþjónustan snýst ekki um fjöldann sem hingað kemur heldur hverju ferðamennirnir skila. Í þessu verður að vera skýr stefna. Við verðum að passa að upplifun fólks verði góð og það er fljótt að spyrjast út ef svo er ekki.“
Nefndi Bogi sem dæmi hve vel hefur tekist til hjá Bláa lóninu að tekjustýra aðganginum að staðnum, þar sem ákveðinn fjöldi kemst inn á hverjum tíma. Sagði hann að það sama ætti að vera hægt að gera við Gullfoss til dæmis, og hafa dýrara að skoða fossinn þegar mest ásókn er en ódýrara í desember t.d. þegar færri eru á ferðinni.
„Við höfum rætt þetta við stjórnvöld og komið okkar sjónarmiðum um álagsstýrinu á framfæri, gjaldtöku í stað komugjalds í Keflavík. Komugjöld nýtast ekki til álagsstýringar og þau hafa líka áhrif á samkeppnishæfni landins.“
Hann segir fólk tilbúið að greiða fyrir góða upplifun. Taldii hann sem dæmi að bandarískir ferðamenn sem eru stærsti hópurinn sem hingað kemur myndu almennt sætta sig við að greiða slíkt gjald.
„Stjórnvöld tala um að ná í auknar tekjur af ferðamönnum og ferðaþjónustan er nú þegar að skila tugum milljarða í skattekjur. Samt er talað um að ná í frekari tekjur. Við verðum því að nota tækifærið og búa til kerfi sem nýtist í að stýra álaginu í stað þess að setja á komugjöld.“
Í máli Boga kom fram að í sumar byði Icelandair upp á stærstu flugáætlun í sögu félagsins þegar komi að tíðni fluga og fjölda áfangastaða. Flognir sætiskílómetrar séu þó færri en fyrir Covid faraldurinn.
Hann segir umfang starfseminnar mjög mikið í sumar og mikið að gerast í þjálfun starfsfólks. Mikil eftirspurn sé eftir störfum hjá fyrirtækinu og vel gangi að ráða í störf. Um sex þúsund manns ynnu hjá félaginu í sumar.
Spár gera ráð fyrir 2,3 milljónum ferðamanna í sumar og sagði Bogi að Íslandi hefði gengið betur en mörgum öðrum mörkuðum að ná vopnum sínum eftir faraldurinn.
„Framboð á flugi til Íslands í sumar er meira en mest var fyrir faraldurinn. Það er staða sem er á mjög fáum mörkuðum,“ sagði Bogi og bætti við að flugfélögin sem hingað flygju í sumar væru þrjátíu talsins. „Þetta eru mörg stærstu og öflugustu flugfélög í Bandaríkjunum og Evrópu og samkeppnin er því gríðarleg.“
Bogi sagði á fundinum að afkomuspá félagsins gerði ráð fyrir hagnaði af rekstrinum á þessu ári þrátt fyrir sjö milljarða króna tap á fyrsta ársfjórðungi, sem jafnan er versti fjórðungur í rekstri félagsins.
„Það er dýrt að reka flugfélag á Íslandi. Hér eru lífskjör góð og laun há. Það er mikilvægt að hafa sterka innviði í félaginu og trausta tekjuöflun. Við höfum náð að afla miklu af eigin fé á síðustu mánuðum. Tekjuöflun snýst ekki bara um að hækka fargjöldin heldur einnig að nýta sætin betur. Okkur hefur til að mynda tekist að auka nýtingu á Saga Class sætum mjög mikið. Leiðarkerfinu er afar vel stýrt og það hefur almennt gengið vel hjá félaginu síðan Covid hætti að hafa áhrif.“
Hann sagði að stjórnendur Icelandair væru bjartsýnir á framtíðina. Mikilvægt væri að vera með réttu vöruna og rétta viðskiptalíkan fyrir það umhverfi sem starfað er í. „Við höfum byggt upp þetta sterka vörumerki á síðustu tugum ára og það er orðið vel þekkt miðað við smæð félagsins bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Það er gríðarlega verðmætt.“
Þá segir hann að samstarf við önnur flugfélög eins og t.d. Jet Blue á austurströnd Bandaríkjanna skili um 10% af tekjum Icelandair. „Þetta eru mjög verðmætar tekjur. Við erum að þétta þetta net samstarfsaðila og það mun hjálpa okkur ótrúlega mikið í þessu umhverfi sem við erum að fást við núna, þar sem miklar kostnaðarhækkanir eru og verðbólga á öllum mörkuðum.“
Þegar Bogi er spurður að því hvort verðbólgan hafi áhrif á ferðamannastrauminn segir hann að neyslumynstrið hafi breyst eftir faraldurinn. Fólk vilji frekar eyða peningum í upplifanir og hitta ættingja og vini í staðinn fyrir að endurnýja eldhúsinnréttinguna eða annað.
Spurður um einstaka nýja áfangastaði sagði Bogi að ákvarðanir um þá séu teknar eftir ítarlega greiningu. Til dæmis sé Raleigh-Durham í Norður-Karolínu góður áfangastaður. Þangað hafi margir flutt til að vinna í tæknifyrirtækjum og fáar tengingar við Evrópu hafi verið til staðar. „Greining okkar sýndi mikil tækifæri þarna og áfangastaðurinn hefur gengið mjög vel. Á þessu ári verður Raleigh-Durham heilsársáfangastaður hjá okkur. Okkur hefur verið gríðarlega vel tekið þarna.“
Spurður um Tel Aviv í Ísrael segir Bogi að Icelandair sjái þar tækifæri í tengingum við Norður-Ameríku. Auk þess sé sterkur markaður í Ísrael fyrir ferðum til Íslands.
Á fundinum var Bogi spurður út í hvað hann hefði lært í áfallastjórnun eftir að hafa gengið í gegnum röð áfalla undanfarin ár, eins og kyrrsetningu Max þotanna og Covid faraldurinn. Sagði Bogi, sem tók við sem forstjóri Icelandair í ágúst 2018, að lærdómurinn væri einkum sá að halda ró sinni og hafa gott fólk með sér á réttu stöðunum. „Teymið okkar hefur staðið saman sem einn maður í gegnum þetta allt saman.“
Þá sagði Bogi að mikilvægt sé fyrir félagið að vera með nægt laust fé tiltækt til að bregðast við óvæntum atburðum. „Það er og hefur alltaf verið okkar stefna,“ sagði Bogi að lokum.