Stór hópur hjólafólks tók í gærkvöldi þátt í viðburðinum Keðjuhvörf til vitundarvakningar um óviðunandi ástand í umferðaröryggismálum hjólandi umferðar.
Fólkið hjólaði rólega um miðborg Reykjavíkur en hringdi jafnframt bjöllum og þeytti lúðra til að vekja athygli annarra vegfarenda á því að taka þurfi tillit til hjólreiðafólks í umferðinni.
Finnst mörgum það skjóta skökku við að umferðaröryggi hjólafólks sé ábótavant þegar yfirvöld hafa það yfirlýsta markmið að landið verði kolefnislaust árið 2040.
Því markmiði verði ekki náð nema með breyttum ferðavenjum og hvetja þurfi til hjólreiða með bættu umferðaröryggi, en dæmi séu um að umferðarslys hjólafólks hafi ekki fengið verðskuldaða athygli frá lögreglu.