Ósátt við svör ráðherra um hvalveiðar

Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson Eggert Jóhannesson

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, spurði Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, á þingfundi í dag út í afstöðu hans til hvalveiða á Íslandi. Svör hans þóttu þó ekki viðunandi, en þau voru þess efnis að nýta eigi auðlindir með sjálfbærum hætti og vísindalegri ráðgjöf.

„Það hefur undanfarið legið töluvert á forsætisráðherra og ráðherra sjávarútvegsmála, bæði hér í þingsal og í almennri umræðu, vegna stuðnings ríkisstjórnarinnar við hvalveiðar. Þar hefur áherslan ekki síst verið á það dýraníð sem Hvalur hf. hefur orðið uppvís að en líka neikvæðar efnahagslegar afleiðingar hvalveiða,“ segir Hanna úr ræðustól og bætir við að nú liggi undanþáguumsókn Hvals fyrir í umhverfisráðuneytinu.

Vegna þessa, og upplýsinga um að fyrirtækið hafi ekki brugðist við frávikum frá fyrri starfsleyfum, spyr Hanna ráðherra hvernig fyrirhugað sé bregðast við undanþágubeiðni Hvals hf. og hvort það sé rétt, að mati ráðherra, að veita undnaþágu til fyrirtækis „sem ekki hefur starfað í samræmi við reglur í landinu“.

Auk þess spyr hún hver afstaða ráðherra til hvalveiða Íslendinga væri, „í ljósi jákvæðra áhrifa sem hvalir hafi á vistkerfi sjávar og loftslag“.

Hanna Katrín Friðriksson is a Member of Parliament for The …
Hanna Katrín Friðriksson is a Member of Parliament for The Liberal Reform Party. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikilvægt að ráða sjálf

Í svari sínu við fyrirspurn Hönnu segist umhverfisráðherra ekki ætla að kveða upp í þingsal niðurstöðu í máli sem er í formlegum farvegi í ráðuneytinu. Það séu ekki sæmandi vinnubrögð. Hann bætir við að málefni sjávarauðlinda rati ekki til umhverfisráðuneytisins en segir að það sé lykilatriði að nýta auðlindir með sjálfbærum hætti og byggja á vísindalegri ráðgjöf.

„Það er það sem við höfum ávallt lagt áherslu á, Íslendingar, alls staðar, og að við ráðum þeim málum sjálf,“ segir hann og bætir við að það sé mikilvægt að sjálfbærni sé ávallt höfð að leiðarljósi. Jafnframt sé mikilvægt „að við ráðum sjálf okkar málum, því að við gætum verið í þeirri stöðu, ef sumir flokkar ná fram sínum áherslum, að við verðum bara álitsgjafar og að þessar ákvarðanir væru teknar annars staðar.“

Hann ítrekar að hann segi þetta af fullri alvöru.

Ráðherra hafi enga skoðun

„Umhverfisráðherra hefur sem sagt enga skoðun á hvalveiðum Íslendinga,“ segir Hanna Katrín í svari sínu við svari ráðherra.

Hún segist taka undir að það sé mikilvægt að við ráðum okkar málum sjálf eins og hver önnur fullvalda þjóð en hún deilir ekki áhyggjum ráðherra af „því að ef við værum innan Evrópusambandsins myndum við neyðast til að veiða hval.“

„Þegar tekið er tillit til þess að enginn af þremur stoðum sjálfbærni styður hvalveiðar, ekki efnahagslega stoðin, ekki sú félagslega og ekki sú umhverfislega. Þá er kannski ástæða til að líta til hagsmuna Íslendinga frekar en hagsmuna Hvals hf. og segja nei við hvalveiðum,“ Segir hún.

„En fyrst og fremst þætti mér í alvöru ágætt að fá skoðun ráðherrans á hvalveiðum.“

„Svaraður bara spurningunni!“

„Þingmaður segir hér að ég hafi enga skoðun á lífríki sjávar. Ég var nú að fara nákvæmlega yfir það hér í mínu svari, sem er algerlega skýrt. Og að háttvirtur þingmaður skuli leggja þannig út af orðum mínum er náttúrlega sérstakt rannsóknarefni,“ segir hann. 

„Hvaða, hvaða,“ heyrist í einum þingmanni í sal og „Í alvöru?“ heyrist úr öðrum.

Ráðherra heldur áfram. „Þingmaður, sem er hér í ræðustól að ræða lífríki, gagnrýnir á sama tíma það þegar ég er að benda á hið augljósa, að það er verið að skerða lífríki okkar Reykvíkinga, okkar landsmanna, á ábyrgð Viðreisnar,“ segir Guðlaugur og hlátrasköll brjótast út í þingsal.

„Svaraðu bara spurningunni!“ kallar þingmaður til ráðherra úr þingsal. 

„Hvaða spurningu?“ svarar ráðherra. „Það er algerlega skýrt í mínum huga og liggur alveg fyrir að ég legg áherslu á það að við nýtum auðlindir bæði sjós og lands með sjálfbærum hætti. Ég held að það þurfi aðeins að skoða fullyrðingar háttvirts þingmanns þegar hann fer yfir sjálfbærniviðmiðin varðandi þessar veiðar, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, en við klárum það ekki í þessari umræðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert