Gjörningahópurinn Pussy Riot mun stíga á svið á LungA í sumar þegar listahátíðin verður haldin í tuttugasta og fjórða skiptið dagana 9.-16. júlí.
Hópurinn hefur síðastliðin tvö ár ferðast víða um Evrópu en eftir 70 daga reisu um Bandaríkin og Evrópu mun hópurinn heimsækja Seyðisfjörð og flytja þar sýninguna Riot Days.
Í tilkynningu frá skipuleggjendum hátíðarinnar segir að sýningin sé sambland af tónleikum, gjörningalist og pólitískum mótmælum.
Í síðasta mánuði veitti Alþingi þeim Mariiu Alekhinu og Lucy Shtein, liðsmönnum Pussy Riot, íslenskan ríkisborgararétt, en þær voru í hópi 18 sem veittur var ríkisborgararéttur í það skiptið.
„Riot Days-sýningin var að hluta til þróuð og æfð á sviði Þjóðleikhússins í tilefni yfirlitssýningar hópsins í Kling & Bang galleríi síðastliðinn vetur. Þá hafði forsprakki hópsins Masha Alyokhina naumlega flúið Rússland en hún og Lucy Shtein hlutu íslenskan ríkisborgararétt nú á dögunum,“ segir í tilkynningunni.
Meðal annarra listamanna sem koma fram á hátíðinni eru Countess Malaise, Dream Wife, GRÓA, Kælan mikla, Nuha Ruby Ra og Zakia.