Að mati nokkurra sveitarfélaga hefur borið á því að skráningum fólks með ótilgreint heimilisfang hafi fjölgað verulega í sumarhúsabyggðum innan marka sveitarfélaganna og telja þau að slíkar skráningar kunni að vera í andstöðu við reglur sem banna fasta búsetu í frístundabyggð. Sérstakur starfshópur hefur verið skipaður til að fara yfir þessi mál.
Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra við fyrirspurn Gísla Rafns Ólafssonar, þingmanns Pírata, en hann spurði ráðherra um stöðu þeirra sem séu óstaðsettir í hús í þjóðskrá.
Í svari Sigurðar Inga segir, að nú seinni part vetrar hafi verið ákveðið að setja á fót starfshóp til að skoða búsetu þeirra sem eru skráðir með ótilgreint heimilisfang skv. 4. gr. laga um lögheimili og aðsetur.
„Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að verði ekki skorið úr um lögheimili einstaklings skv. 1. mgr. sé heimilt að skrá einstakling til lögheimilis í sveitarfélagi án tilgreinds heimilisfangs. Skal þá miðað við það sveitarfélag þar sem hann hefur haft þriggja mánaða samfellda dvöl. Að mati nokkurra sveitarfélaga hefur borið á því að slíkum skráningum hafi fjölgað verulega í sumarhúsabyggðum innan marka sveitarfélaganna og telja þau að slíkar skráningar kunni að vera í andstöðu við reglur sem banna fasta búsetu í frístundabyggð,“ segir í svarinu.
Sigurður Ingi segir enn fremur, að ráðuneytið hafi talið rétt að taka þessi mál til sérstakrar skoðunar með hliðsjón af því hvort rétt væri að breyta þessum reglum og því var umræddur starfshópur settur á fót og hefur hann hafið störf.
Fram kemur að verkefni starfshópsins sé m.a. að:
Þá segir að í hópnum sé fulltrúi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem jafnframt er formaður.
Einnig eru í honum fulltrúar Þjóðskrár Íslands og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, ásamt fulltrúa frá almannavörnum.
Gert er ráð fyrir að hópurinn ljúki störfum fyrir 1. október.