„Það er gjörsamlega verið að gaslýsa íbúa“

Horft af Vatnsendahvarfi, þar sem leggja á hraðbraut, yfir höfuðborgina.
Horft af Vatnsendahvarfi, þar sem leggja á hraðbraut, yfir höfuðborgina. Ljósmynd/Helga Kristín Gunnarsdóttir

„Þetta er lýsandi fyrir það hvernig er verið að stýra málum bæði innan Reykjavíkur og Kópavogs þessa dagana. Þau taka ákvarðanir fyrir íbúa og svo sannfæra þau íbúa um að þau hafi talað við íbúana fyrir fram. Það er gjörsamlega verið að gaslýsa íbúa.“

Þetta segir Helga Kristín Gunnarsdóttir, talsmaður Vina Vatnsendahvarfs, um þá ákvörðun úrsk­urðar­nefndar um­hverf­is- og auðlinda­mála að vísa frá tveimur kærum, sem íbúar við Vatnsendahvarf lögðu fram vegna samþykktar Kópavogsbæjar á umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi fyrir þriðja áfanga Arnarnesvegar.

Hluti af pólitískum hrossakaupum

Helga segir fyrirhugaðar framkvæmdir að Arnarnesvegi vera hluti af pólitískum hrossakaupum jafnt og það sé aðför gegn grænum svæðum á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og greint hefur verið frá lögðu samtökin Vinir Kópavogs og Hollvinasamtök Elliðaárdalsins, ásamt tugum íbúa, fram kæru vegna fyrirhugaðar lagningar vegarins.

Kærendur héldu því fram að lögbundið samráð við íbúa hefði farið forgörðum. Jafnframt byggðu þeir málið sitt á því að umhverfismat frá árinu 2003 gæti ekki staðist sem grundvöllur fyrir framkvæmdunum.

Allar ábendingar hunsaðar

Helga segir úrskurðinn mikil vonbrigði fyrir íbúa við Vatnsendahvarf þó að hann hafi verið fyrirsjáanlegur. 

„Við vissum það fyrir fram að þetta yrði erfiður róður. Það er búið að taka ákvörðun um þetta fyrir löngu og það á ekki að skipta um skoðun, sama hvað.“

Að hennar mati kemur það ekki til greina að bæjaryfirvöld taki mark á gagnrýni og umsögnum íbúa og harmar hún að ekki sé tekið tillit til skoðana íbúa.

Hún bætir við að allar ábendingar þeirra varðandi fyrirhugaðan veg hafi verið hunsaðar. 

„Þýðir ekkert að tala um íbúalýðræði“

„Það er ekkert samtal og það þýðir ekkert að tala um íbúalýðræði. Þegar búið er að ákveða eitthvað er bara ekkert hægt að hreyfa við því.“

Hún ítrekar að hún og aðrir sem lögðu fram kæru gegn veginum séu ekki endilega á móti veginum sjálfum heldur því hvernig fyrirhugað er að leggja hann. 

„Það er ekki hlustað á íbúa með aðra möguleika með að leggja veginn. Eins og til dæmis að leggja hann í stokk eða leggja hann í göng. Við erum fyrst og fremst á móti því að umhverfismatið sé frá árinu 2003.

Nýtt umhverfismat væri í rauninni í samræmi við umhverfismarkmið nútímans en ekki markmið fyrir öld snjallsímans.“

Nýr vegur verður lagður á brú yfir Breiðholtsbrautina og inn …
Nýr vegur verður lagður á brú yfir Breiðholtsbrautina og inn aftur á ljósastýrðum gatnamótum. Teikning/Vegagerðin

Enginn að hugsa um náttúruna

Að hennar mati er um að ræða aðför gegn grænum svæðum bæði í Reykjavík og Kópavogi. 

„Það er ekki tekið tillit til mikilvægi grænna svæða í borgarskipulagi. Þetta tengist innbyrðis átökum á milli sveitarfélaga. Það er eins og það sé ekki hægt að skipuleggja svæði til framtíðar. Við sjáum bara hvað er að gerast í Skerjafirðinum núna.

Maður hugsar bara hvort þau ætli í alvörunni að byrja að sprengja á morgun, þegar maður heyrir í lóunni og hrossagaukunum syngja á svæðinu og koma ungunum sínum á legg. Það er enginn að hugsa neitt um náttúruna. Þetta fólk hefur aldrei komið upp á þessa hæð eða notið þess að fylgjast með sólarlaginu.“

Ekki endilega leiðarlok

Hún bætir við að líklegast sé Arnarnesvegur hluti af pólitískum hrossakaupum á milli Reykjavíkurborgar og Kópavogs. 

„Jafnvel umhverfissinnaðir flokkar segja að það sé ekkert hægt að gera. Þau segja bara: Við urðum að gera þetta til að fá Borgarlínuna í gegn á sínum tíma því að Kópavogsbær ætlaði ekki að samþykkja Borgarlínuna nema að þessi vegur færi í gegn.“

Helga segir að þessi ákvörðun úrskurðarnefndarinnar að vísa málinu frá séu ekki endilega leiðarlok fyrir baráttu hópsins. Hún segir næstu skref fara eftir framvindu málsins.

„Það er hægt að kæra framkvæmdaleyfið þegar Reykjavíkurborg sækir um það. Miðað við úrskurðinn er samt ólíklegt að þar verði önnur niðurstaða, en við höldum áfram að senda kærur og gera það sem við getum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert