„Þetta er algjör steik“

Sundlaugargestir í góða veðrinu í dag.
Sundlaugargestir í góða veðrinu í dag. Ljósmynd/Sundlaug Egilsstaða

Mesti hiti landsins á árinu til þessa mældist á Hallormsstað í dag. Mikill hiti hefur sömuleiðis mælst á Egilsstöðum og á Kirkjubæjarklaustri.

„Þetta er algjör steik,“ segir Sigurður Aðalsteinsson, fréttaritari Morgunblaðsins og mbl.is, um veðrið fyrir austan. Hann er við vinnu á Seyðisfirði og segist ánægður með að fá smá golu frá sjónum.

Tjaldstæðið viðbúið öllu

„Við trúum ekki öðru en að við fáum frábært sumar,“ segir Heiður Vigfúsdóttir, sem rekur tjaldstæðið á Egilsstöðum. Tjaldstæðið sé búið undir mikinn áhuga ferðamanna og hafi hlotið vilyrði bæjarins fyrir stækkun á svæðinu, verði mjög mikil aðsókn.

„Erlendi ferðahópurinn ferðast ekki eftir veðri heldur er stöðugur. Hins vegar kemur alltaf kippur í fjölda íslenskra ferðamanna þegar spáin er góð,“ segir Heiður, spurð hvort áhugi hafi aukist meðal ferðamanna á að ferðast til Egilsstaða vegna veðursins.

Heiður segir tjaldstæðið einnig vera í stakk búið, muni rigna mikið í sumar.

Ákveðin svæði á tjaldstæðinu hafi mottur til að koma í veg fyrir að drullusvað myndist en það heldur einnig grasinu fínu, verði mikið þurrviðri.

„Það eru allir að bráðna hérna í hitanum“

„Komdu bara og taktu viðtal við mig hérna fyrir austan,“ segir Guðmundur Birkir Jóhannsson, forstöðumaður sundlaugar Egilsstaða, kíminn í samtali við blaðamann mbl.is þegar blíðviðrið berst í tal.

Spurður hvernig brugðist sé við blíðviðrinu í sundlauginni segir hann að starfsmönnum á vakt sé fjölgað vegna öryggis.

„Við erum búin að henda út sólbekkjum, borðum og stólum fyrir gesti. Það eru bara allir að bráðna hérna í hitanum,“ segir Guðmundur.

Sundlaugin sé nýopnuð eftir framkvæmdir og tilbúin að taka á móti sólþyrstum ferðamönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert