Útflutningsbanni upprunaábyrgða hefur verið aflétt. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Samtaka útgefanda upprunaábyrgða (AIB). Þá kemur fram í tilkynningu að Landsneti verði veittur frestur fram í október til úrbóta.
Vísbendingar voru um að upprunaábyrgðir væru tvítaldar en sala upprunaábyrgða nemur allt að 20 milljörðum árlega.
Í tilkynningunni segir að það skilyrði verði sett að það verði yfir allan vafa hafið að upprunavottorð séu ekki tvítalin líkt og ásakanir hafa verið um.
Er Landsneti í sjálfvald sett hvernig staðið verður að úrbótum í málinu en ekkert eftirlit hefur verið með upprunaábyrgðum hérlendis.
Á vef Orkustofnunar kemur fram að íslensk fyrirtæki sem framleiða rafmagn geta selt upprunaábyrgðir bæði til innlendra aðila og til evrópskra aðila og hafa gert það frá árinu 2011. Orkustofnun hefur það hlutverk að reikna út uppruna raforku á Íslandi eftir orkugjöfum ásamt öðru tengdu útgáfu á upprunaábyrgðum. Samkvæmt lögum er Landsneti falið að gefa út upprunarábyrgðir á Íslandi.
Ef upprunaábyrgðir eru seldar til erlendra aðila í Evrópu þarf að flytja inn ígildi samsvarandi magns raforku í sömu hlutföllum og samsetning raforkuframleiðslu er í Evrópu. Þetta er gert til að koma í veg fyrir tvítalningu sömu orkueininga.