Esther Hallsdóttir og Ísak Rúnarsson eru ungt og efnilegt par sem gerði sér lítið fyrir á dögunum og útskrifaðist frá Harvard Kennedy-háskólanum í Massachusetts. Það eitt og sér er afrek en í þokkabót hlaut Esther eftirsóttustu verðlaun skólans en þau voru fyrir besta meistaraverkefni ársins.
Bæði voru þau í meistaranámi. Esther í opinberri stefnumótun og Ísak í opinberri stjórnsýslu, en því samhliða var Ísak að taka MBA-gráðu við Dartmouth-háskóla. Framtíðin er björt hjá þeim en í sumar munu þau svo gifta sig.
Blaðamaður ræddi við þau um námið, framtíðina og nokkur góð ráð fyrir ungt fólk sem er í námshugleiðingum.
Hvað eru þið búin að vera lengi erlendis?
„Ég fór út haustið 2020, í miðjum faraldri, en Esther fór út ári seinna. Þegar ég kom út var búið að loka öllum almenningssamgöngum til Dartmouth sem er í rúmlega tveggja tíma fjarlægð frá Boston, nema Uber, þannig að ég endaði á því að taka tveggja tíma Uber-ferð þangað,“ segir Ísak.
Esther ætlaði upphaflega að halda út á sama tíma en ákvað svo á síðustu stundu að fresta um eitt ár eftir að námið fluttist á netið og kom í ljós að hún myndi þurfa að vera í fjarnámi frá Íslandi ef hún byrjaði í náminu.
„Það var dálítið flókið vegna þess að við vorum bæði búin að segja upp í vinnunni og leigja út íbúðina okkar. Ég neyddist þess vegna til að flytja inn á foreldra mína og finna mér eitthvað nýtt að gera,“ segir Esther. Hún sat þó ekki auðum höndum en hún starfaði við blaðamennsku og hlaðvarpsgerð auk þess að aðstoða prófessor við Háskóla Íslands við rannsóknir yfir árið og hélt svo út til Boston haustið 2021.
Esther segir að þau hafi í raun kynnst sumarið 2016 í Bandaríkjunum en þau stunduðu bæði sumarnám við Stanford-háskóla. „Það var alveg magnað sumar og eftir það vorum við bæði orðin ákveðin í að fara í meistaranám erlendis seinna meir,“ bætir Ísak við.
„Eftir sumarið okkar í Stanford vorum við eiginlega ákveðin í að fara í meistaranám til Bandaríkjanna og námið í Kennedy-skólanum heillaði okkur bæði. Hér er svo ótrúlega margt hæfileikaríkt fólk, bæði þegar kemur að fólki sem hefur tekið fræðilega nálgun en líka fólk sem hefur reynslu af því að starfa í pólitík eða hjá alþjóðastofnunum og hefur reynt á eigin skinni að framkvæma og taka ákvarðanir.
Svo rekst maður á þetta fólk eins og ekkert sé sjálfsagðara, svo eitt dæmi sé tekið rakst ég fyrir tilviljun á Stefan Löfven, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, í matsalnum einn daginn þegar ég var að fá mér hádegismat, en hann var þá í tímabundinni stöðu við skólann. Það eru mikil gæði í kennslunni hér og líka mörg tækifæri til að gera spennandi hluti fyrir utan formlegt nám, eins og að aðstoða prófessora við rannsóknir eða kennslu, eins og ég hef gert, mæta á ótal viðburði sem haldnir eru á hverjum degi og taka þátt í öflugu félagslífi,“ segir Esther.
Blaðamaður spurði Ísak svo út í hvernig þau háttuðu námi sínu enda ekki á hverjum degi sem fólk fer saman utan í nám.
„Við Esther vinnum að mörgu leyti ólíkt. Ég er héri og hún skjaldbaka. Ef fólk man ekki hvernig dæmisagan af kapphlaupi hérans og skjaldbökunnar endar, þá vinnur skjaldbakan. En það sem ég meina er að henni finnst gott að byrja snemma og vinna jafnt og þétt og það á eiginlega við öll verkefni. Ég aftur á móti vinn flest á síðustu stundu og tek þá stundum tarnir sem hlaupa á tugum klukkustunda. Þannig að þegar ég er að byrja er Esther venjulega búin með það sem hún þarf að gera,“ segir Ísak og heldur áfram: „Aftur á móti eru það náttúrulega ómetanleg forréttindi að vera svona á sama staðnum, og geta borið spurningarnar og verkefni undir hvort annað, fengið hugmyndir og yfirlestur og þess háttar. Þannig að við hjálpumst mikið að, þótt við lærum ekki endilega mikið saman svona í strangasta skilningi þess orðs.“
Esther gerði sér lítið fyrir og hlaut eftirsóttustu verðlaun skólans en meistaraverkefnið hennar hét: Unlocking Potential: A Roadmap to Reduce Stunting in Sindh, Pakistan, og var unnið með Stuti Ginodia.
„Meistaraverkefnið okkar Stuti var unnið fyrir Alþjóðabankann og fjallaði um það hvaða þættir í umhverfi barna í Sindh í Pakistan gerðu þau líklegri til að glíma við skertan vöxt og til hvaða aðgerða væri hægt að grípa til þess að sporna við því. Eitt af hverjum tveimur börnum í héraðinu glímir við skertan vöxt, það er að segja eru of lágvaxin miðað við aldur, og þetta er stórt vandamál víða í fátækum ríkjum, og kemur til vegna þess að börn fá ekki næga eða nægilega góða næringu. Þetta hefur svo áhrif út lífið og skerðir tækifæri þessara barna til að ná árangri í skóla, fá góða vinnu á fullorðinsárum og búa við góða heilsu, og heldur auðvitað aftur af framförum almennt. Þannig að þetta er mjög mikilvægt málefni og að hugsa til þessara barna dreif okkur áfram til að gera þetta vel. Maður vonar auðvitað að skýrslan sem við skiluðum af okkur hjálpi Alþjóðabankanum að vinna í þessu málefni,“ segir Esther.
„Annars var verkefnið mjög krefjandi, bæði vegna þess að málefnið er flókið en líka vegna þess að við Stuti ákváðum að fara svolítið út fyrir þægindarammann og nota krefjandi aðferðafræði sem tvinnar saman tölfræðigreiningum á stóru gagnasetti og viðtölum við sérfræðinga. Við hlutum góða þjálfun í tölfræði á fyrra árinu okkar í náminu en þetta verkefni var kannski svolítið viðameira heldur en við höfðum tekist á við áður og forritunin flóknari, og ég verð að viðurkenna að ég efaðist á köflum um að við myndum yfir höfuð skila einhverju af okkur, þrátt fyrir að Ísak haldi því fram að þetta hafi aldrei verið spurning. Vikan fyrir jól var sérstaklega erfið og ég bið fjölskylduna hér með afsökunar á því hversu miklum tíma ég varði yfir tölvunni í jólafríinu, á milli þess sem ég borðaði jólamatinn og greip í spil.“
Mér skilst að þú sért kominn með starf í Bandaríkjunum. Hvað ertu að fara að gera?
„Jú mikið rétt. Ég er að fara að vinna sem ráðgjafi fyrir Boston Consulting Group – reyndar ekki í Boston heldur Washington DC. Fyrirtækið veitir ráðgjöf til stjórnenda í einkageiranum og reyndar opinbera geiranum sömuleiðis og oft með áhugaverð verkefni á sinni könnu, þannig það er spennandi að fá að taka þátt í einhverjum þeirra,“ segir Ísak.
Spurð út í framtíð þeirra segir Esther að það sé nóg í vændum.
„Núna erum við að pakka öllu okkar hafurtaski saman og setjum það í geymslu en við ætlum að vera á Íslandi yfir sumarið áður en við flytjum til Washington DC í haust. Það sem er helst á dagskrá er að við ætlum að gifta okkur í sumar með fjölskyldu og vinum í heimabænum mínum, Selfossi – þannig það að það raðast nokkrir stórir viðburðir í okkar lífum svona með stuttu millibili þessa dagana. Við hlökkum mikið til að verja meiri tíma með fjölskyldu og vinum í sumar.“
Blaðamaður spurði Ísak svo að lokum hvort hann væri með einhverja ráðgjöf fyrir ungt fólk sem er að íhuga nám út fyrir landsteinana.
„Ég held að vegna þess hve ólík háskólakerfin eru, alla vega ef maður ber saman Bandaríkin og Ísland, sé besta ráðið að byrja að huga að þessu snemma. Bæði þarf oft að fara í alþjóðleg próf en svo er þess oftast krafist að maður skrifi fjöldann allan af umsóknarritgerðum. Það er töluverð vinna sem felst í að átta sig á að hverju skólarnir eru leita í hverju tilviki fyrir sig og ef maður vill senda inn samkeppnishæfa umsókn þarf maður að tala svolítið inn í það í umsókninni. Ef fólk er ekki einhvers konar ofurmenni þá tekur þetta að minnsta kosti ár í undirbúningi. En svo það sé sagt held ég að það sé algjörlega þess virði og ef fólk er að velta þessu fyrir sér og það heldur að maður geti orðið að liði er sjálfsagt að senda manni línu.“