Eliza Reid kynnir Ísland í New York Times

Forsetafrú Íslands, Eliza Reid.
Forsetafrú Íslands, Eliza Reid. mbl.is/Ásdís

Eliza Reid forsetafrú kynnir Ísland fyrir væntanlegum ferðamönnum og ítrekar mikilvægi öryggis og virðingar gagnvart landinu í nýrri grein sem birtist á vef dagblaðsins New York Times.

Í greininni minnist Eliza þess þegar hún og Guðni Th. Jó­hann­es­son, forseti Íslands, fögnuðu brúðkaupsafmælinu sínu á veitingastað í Reykjavík. Að kvöldverðnum loknum stakk hún upp á því að þau færu í göngutúr en Guðni var ekki jafn spenntur fyrir því og vildi ekki vera stöðvaður til að taka sjálfur með fólki sem kannaðist við hann.

Eliza sannfærði þá Guðna um að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því, sem reyndist rétt því að í miðbænum voru nánast einungis erlendir ferðamenn sem könnuðust ekki við forsetann og forsetafrúnna. 

Ferðamenn bjóði upp á tækifæri og áskoranir

Í greininni fer Eliza yfir það hvernig mikil fjölgun ferðamanna til landsins hafi á sama tíma boðið upp á mörg tækifæri jafnt og áskoranir. 

„Ferðamannageirinn hefur opnað dyr sem voru kannski áður lokaðar. Þú sérð það á þeim fjölda áfangastaða sem er hægt að ferðast til frá Íslandi, á þeim fjölda veitingastaða og kaffihúsa sem eru opin lengur en áður fyrr,“ er haft eftir Elizu.

Mikilvægt að ferðamenn fari varlega

Þá reifar hún sögu bankahrunsins og eldgossins í Eyjafjallajökli sem hafði slæmar afleiðingar fyrir landið en virkaði samt sem áður sem hálfgerð auglýsing eða landkynning gagnvart ferðamönnum að hennar mati. 

„Þegar ég byrjaði fyrst að koma til Íslands fyrir 25 árum síðan varð fólk hissa og spurði mig hvort ég væri að tala um Írland en núna þegar ég segi fólki frá Íslandi svara allir að þeim dauðlangi að koma þangað.“

Að auki ítrekar Eliza mikilvægi þess að ferðamenn fari varlega í náttúrunni á Íslandi og þá sérstaklega í fjörum, í kringum heitar uppsprettur og í kringum eldfjöll. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert