„Nei nei, það er ekkert vitað. Ég fór þarna um helgina og tók sýni úr nokkrum fuglum eftir að bóndi þarna í Grunnafirði hringdi í mig og hafði þá tekið eftir óhemjumörgum dauðum lundum í fjörunni hjá sér,“ segir dr. Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur á Keldum, í samtali við mbl.is um fjölda dauðra lunda sem fundist hafa á Vesturlandi nýlega.
Í því tilfelli sem Vilhjálmur talar um voru lundarnir í Grunnafirði sem er norðaustan við Akranes og svarar hann hér í inngangi spurningu um hvort vitað sé hvað dregið hafi fuglana til dauða. Nú sé hins vegar ljóst, í kjölfar sýnatöku hans, að þar hafi ekki verið um fuglaflensu að ræða.
„Ég gekk þarna einhverja 350 metra og þar lágu um fjörutíu dauðir fuglar eins og menn hafa verið að lýsa, en sýnin úr þeim voru neikvæð fyrir fuglaflensu,“ segir Vilhjálmur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur setti fram kenningu um að öldugangur gæti hafa orðið fuglunum að aldurtila og telur Vilhjálmur það ekki ólíklegt. „Ég kíkti náttúrulega ekki inn í þá og veit ekki hvort nokkur er búinn að gera það, maður er ekkert hrifinn af því að vera að kryfja fugla án þess að vita hvort um fuglaflensu hafi verið að ræða,“ segir hann og telur lundana í Grunnafirði hafa borið þess merki að hafa drepist á sama tíma.
„Ef maður væri með smitsjúkdóm myndi maður ætla að þetta væri yfir lengri tíma og staðan á hræjunum væri mismunandi. En eitrun kæmi auðvitað líka til greina, annaðhvort hræeitrun, það er bótúlismi, eða önnur eiturefni,“ segir veirufræðingurinn og kveður dauða fugla frá Náttúrufræðistofnun Vesturlands hafa verið að berast honum í þessum töluðu orðum og væri hann að hefja skoðun á þeim.
Aðspurður segir Vilhjálmur stórfelldan fugladauða ekki óalgengan – hins vegar sé hann ekki algengur á þessum árstíma, meira um hávetur, svo sem í janúar. „En súlurnar í fyrravor til dæmis, þær hrundu niður úr fuglaflensu, en eins og staðan er núna höldum við ekki að hér sé um neitt slíkt að ræða,“ segir dr. Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur, að lokum.