Deildarstjóri þjónustusviðs BL, Trausti Björn Ríkharðsson, segir BL ekki kunnugt um að framleiðsla Land Rover-bifreiða sé að einhverju leyti ofar í mælikvörðum brunatilvika, en ökutæki annarra framleiðenda. Öll tilfelli séu þó tekin mjög alvarlega.
Mbl.is greindi nýverið frá því Land Rover Discovery-bifreið sem varð alelda á tæpum 5 mínútum, en eigandi bifreiðarinnar, Margrét Ásta Ívarsdóttir, og fjölskylda hennar sluppu naumlega út úr bílnum áður eldur blossaði upp og bifreiðin brann til kaldra kola.
Í kjölfar fréttarinnar ræddi mbl.is við Karl S. Óskarsson, sölustjóra Land Rover hjá BL umboðinu, en umboðið hefur verið með bílinn í þjónustu og ætlar að lána fjölskyldunni bíl á meðan þau íhuga næstu skref. Karl kvaðst ekki vera kunnugt um að svipuð tilfelli hefðu átt sér stað hérlendis né erlendis.
Blaðamanni mbl.is bárust þó nokkrar ábendingar í kjölfar ummæla Karls, en mörgum þótti skrítið að hann kannaðist ekki við svipuð tilfelli. Var þá bent á að Land Rover Discovery-bifreið hefði orðið alelda í Austur-Húnavatnssýslu fyrir tveimur árum, og gæludýr drepist í eldinum.
Bentu þá sumir á að fleiri en ein tegund Land Rover-bifreiða hefðu verið inkallaðar, þar á meðal 1.970 Land Rover Discovery-bifreiðar af framleiðsluárgerðum 2018 og 2019 en þær voru inkallaðar vegna þess að eldsneytisleiðslur gætu verið rangt staðsettar í vélarými sumra þeirra, en það getur leitt til þess að leiðslur rofni og skapi eldhættu.
Einnig barst blaðamanni ábending um að þónokkrum ónýtum bílvélum í Land Rover Discovery-bifreiðum, hér á landi, hefði verið skipt út í stað þess að kalla þær inn.
Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is varðandi ábendingarnar segir Trausti:
„Því miður gerist það öðru hverju að kviknar í bílum óháð orkugjöfum og enginn bílaframleiðandi er laus við þá áhættu. Ástæður geta verið af öllum toga, þ.á.m. tengdar viðhaldssögu. BL er ekki kunnugt um að framleiðsla Land Rover sé að einhverju leyti ofar í mælikvörðum brunatilvika en ökutæki annarra framleiðenda. Öll tilfelli eru þó tekin mjög alvarlega.
Í umræddu tilfelli, sem átti sér stað í vikunni, óskaði Land Rover þegar í stað eftir ítarlegri skoðun á bílnum og skýrslu. Þessi vinna mun fara fram í samvinnu við framleiðanda, eiganda bílsins og aðra hugsanlega hagsmunaaðila.“
„Annað slagið koma upp innkallanir frá framleiðendum sem varða að langmestu leyti fyrirbyggjandi aðgerðir sem flokkast samkvæmt bókinni sem öryggisinnkallanir. Í þeim tilfellum hefur viðkomandi umboð samband við eigendur bifreiðanna, sem umboðin flytja inn, og í tilfelli BL er það gert með ábyrgðarpósti og símtölum. Það er gert til að tryggja að allir eigendur séu meðvitaðir um innköllunina og sinni henni. Það var engin útistandandi innköllun á þessum bíl og þessi bíll hefur aldrei verið í innköllun sem varðar eldhættu. Ákvarðanir um innkallanir er ávallt teknar af framleiðendum. Eldhætta hefur aldrei tengst vélaskiptum í Discovery 5.
Í umræddu tilviki liggur ástæða brunans enn ekki fyrir en framleiðandinn fylgist mjög vel með málinu og BL hefur óskað eftir því að fá bifreiðina til skoðunar. Þá fyrst verður hægt að hefja formlega rannsókn á ástæðunni.“