Hjálpuðu klósettgesti sem læstist inni

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðaði einstakling sem festist inni á almenningsklósetti …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðaði einstakling sem festist inni á almenningsklósetti í dag. Samsett mynd

Einstaklingur óskaði eftir aðstoð lögreglu eftir að hann læstist inni á almenningssalerni í Árbænum í dag.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglu í dag.

Þar segir að lögreglumaður hafi opnað hurðina fyrir einstaklingnum svo hann kæmist út. Læsing hafi verið yfirfarin og stillt til að sporna við frekari útköllum á umrætt salerni.

Áður svipt ökuréttindum ævilangt

Ökumaður var stöðvaður vegna vítaverðs aksturslags og var hann handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og lyfja. Er hann einnig grunaður um að aka bifreið án ökuréttinda en í ljós kom að hann hafi verið sviptur ökuréttindum ævilangt.

Grunnskólanemendur urðu vitni að einstaklingi að neyta fíkniefna á almenningsbekk og hafði starfsmaður skólans samband við lögreglu. Einstaklingurinn var farinn þegar lögregla kom á vettvang.

Þá var brotist inn í veitingastað í miðbænum og fjármunum stolið. Málið er í rannsókn lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert