Félagsmenn Félags grunnskólakennara og Félags leikskólakennara samþykktu kjarasamninga við Samband íslenskra sveitarfélaga, að því er segir í tilkynningu Kennarasambands Íslands.
Samninganefndir félaganna undirrituðu kjarasamninga við Samband íslenskra sveitarfélaga í síðasta mánuði og voru þeir bornir undir félagsmenn. Atkvæðagreiðsla hófst á þriðjudag og lauk í hádeginu.
Grunnskólakennarar samþykktu samninginn með rúmum 72% atkvæða gegn 25% atkvæða sem höfnuðu honum. Á kjörskrá voru 5.220 félagsmenn og atkvæði greiddu 2.996 eða sem jafngildir rúmum 57%. Auðir seðlar voru 45 talsins.
Leikskólakennarar samþykktu samninginn með 82% atkvæðum gegn rúmum 15% atkvæða sem höfnuðu honum. Samtals voru 2.094 á kjörskrá en atkvæði greiddu 1.410 félagsmenn sem jafngildir um 67% félagsmanna. Auðir seðlar voru 23 talsins.