Lítill munur á dúx og semidúx

90 nemendur voru brautskráðir á laugardaginn.
90 nemendur voru brautskráðir á laugardaginn. Ljósmynd/Flensborg

Krummi Týr Gíslason hlaut hæstu einkunn, upp á 9,88, þegar nemendur Flensborgarskóla voru útskrifaðir á laugardag.

Semidúx skólans var Erla Rúrí Sigurjónsdóttir með einkunnina 9,86 og var því mjótt á munum. 

90 nemendur útskrifuðust en þar af 8 á félagsvísindabraut, 24 af raunvísindabraut, sjö af viðskipta- og hagfræðibraut, fimm af starfsbraut og 46 af opinni braut. 35 þeirra luku einnig námi á íþróttaafrekssviði skólans. 

Hagræðing felist í að sameina ekki

Í ræðu sinni ræddi Erla Sigríður Ragnarsdóttir, skólameistari, um mikilvægi mannúðar á tímum þessum. Lögð hefði verið áhersla á fræðslu jafnréttismála á skólaárinu, en einnig hvernig hinseginleikinn, feðraveldið, fordómar og rasismi birtust í íslensku samfélagi.

Vék skólameistari auk þess að áskorunum framtíðinnar og nýtingu nýrrar tækni. Ræddi hún um áform sameiningu og samstarf framhaldsskólanna. Hvatti hún til þess að hlustað yrði á sjónarmið hagaðila og litið til hagræðingar sem felist í því að sameina ekki Flensborgarskólann við Tækniskólann.  

Semidúx ávarpaði einnig viðstadda en í ræðu sinni minntist hún á að gagnkvæmt traust og samvinna einkenndu skólastarfið og nemendur þyrftu aldrei að leita langt eftir aðstoð. Væru það litlu hlutirnir í skólagöngunni sem stæðu upp úr.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert