Með amfetamín og stera í bílskúrnum

Lögreglan framkvæmdi leit á heimili mannsins þann 10. febrúar. Ákæra …
Lögreglan framkvæmdi leit á heimili mannsins þann 10. febrúar. Ákæra var síðan gefin út 5. maí. mbl.is/Eggert

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnabrot. 

Héraðssaksóknari ákærði manninn, Daniel Norbert Szymanski, í maí fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot og brot gegn lögum um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum, með því að hafa 10. febrúar sl., haft í vörslum sínum í bílskúr, í sölu- og dreifingarskyni samtals, 2.719,77 g af amfetamíni, 692 stykki af vefaukandi steralyfjum og 225 ml af vefaukandi steralyfjum.

Hann var enn fremur ákærður fyrir þjófnað, með því að hafa 4. febrúar, í félagi við þekktan aðila, brotist inn í íbúð og stolið þaðan Rolex-armbandsúri að verðmæti 1.191.300 kr., Breitling armbandsúri, Louis Vuitton tösku, Louis Vuitton snyrtitösku og Louis Vuitton belti að óþekktu verðmæti, sem lögregla fann og lagði hald á á heimili hans við leit þann 10. febrúar.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 31. maí en var birturí gær, að Daniel hafi játað skýlaust fyrir dómi alla þá háttsemi sem honum var gefin að sök samkvæmt ákæru.

Hann játaði hluta þeirrar háttsemi við rannsókn málsins en ýmist neitaði sök eða neitaði að tjá sig hvað aðrar sakargiftir varðaði. 

Fram kemur í dómnum að Daniel hafi talið sig þurft að sæta misrétti á grundvelli þjóðernis vegna gæsluvarðhaldsvistar sinnar frá 11. febrúar 2023, sem brjóti í bága við 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Hann taldi að misréttið hefði falist í því að honum hefði verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan íslenskir sakborningar í sambærilegum málum hafi ekki þurft að sæta gæsluvarðhaldi. Dómstóllinn féllst ekki á þessa málsástæðu Daniels.

Auk þess að hljóta tveggja og hálfs árs dóm, þá gerði dómstóllinn 2.719,77 gr. af amfetamíni, 692 stykkjum af vefaukandi steralyfjum og 225 ml af vefaukandi steralyfjum upptæk. Þá var rauður bensínbrúsa, tvær 10 kg plastfötur, 2 málningarfötur, Motorola-farsími og Samsung-farsími, 5 umbúðir af afjónuðu vatni, 2 umbúðir af stíflueyði, glær skál, 2 vogir, blár múrhræra, vasahnífur og pappakassi gerð upptæk.

Loks gerði dómstóllinn 500.000 krónur, sem lögregla lagði hald á á dvalarstað ákærða 10. febrúar 2023, upptækar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert