Búast má við miklum framkvæmdum á vegum höfuðborgarsvæðisins næstu daga. Í dag verður Reykjanesbraut fræst og malbikuð og framkvæmdir borgarinnar við gatnaviðhald munu halda áfram í næstu viku.
Fræsting og malbikun verður við Vatnsleysuheiði í vesturátt í dag. Þrengt hefur verið í eina akrein og viðeigandi merkingar settar upp. Áætlað er að framkvæmdirnar standi yfir til klukkan 19, þar sem þeim hefur seinkað vegna óviðráðanlegra aðstæðna.
Flestar framkvæmdir eru háðar þurru veðri og gætu orðið fyrir breytingum.
Næstu vikur verður unnið að því að klára útskipti á gatnalýsingu í Kópavogsgjá á Hafnarfjarðarvegi en líklegt er að sú frágangsvinna taki nokkrar vikur. Á þriðjudag og miðvikudag verður akreininni í átt að Reykjavík lokað milli 20 og 6.30 báða dagana. Síðan verður akreininni í átt að Hafnarfirði lokað milli 20 og 6.30 á fimmtudag.
Áframhaldandi framkvæmdir verða svo á svæðinu í vikunni þar á eftir, en sendar verða út nánari tilkynningar um þær.
Lokunarplan fyrir þetta má sjá á neðri myndinni hér fyrir neðan.
Á mánudag verður fræst á Einarsnesi í Skerjafirði frá klukkan 9 til 16. Þá verður einnig farið í að malbika Hringbraut frá Meistaravöllum að Hringbraut 63. Á meðan á framkvæmdum stendur verður Hringbraut lokað til suðausturs frá Grandatorgi. Þær framkvæmdir munu standa yfir frá 18.30 til 23.
Gatnamótum Hringbrautar við Ljósvallagötu og Birkimel verður lokað frá 18.30 til 23 á þriðjudag, á meðan malbikun stendur yfir frá Hringbraut 52 til 78. Einnig verður lokað á umferð niður Hofsvallagötu frá gatnamótum við Ásvallagötu.
Njarðargata verður fræst frá Hringbraut að hringtorginu við Sóleyjargötu frá klukkan 9 til 16 á miðvikudag.
Einnig verður malbikun við Hólsveg og Skeiðavog í Laugardal á þriðjudag.
Á fimmtudaginn er síðan fræsing við Ægisgötu, Vesturgötu og Holtsgötu. Þann dag verður einnig fræst við Eggertsgötu frá kl. 9, Sæmundargötu frá kl. 11 og Bústaðaveg frá kl. 13. Gert er ráð fyrir að allar framkvæmdir þar taki um þrjá tíma.
Á föstudaginn verður fræst við Vatnsmýrarveg og Tjarnargötu. Malbikað verður í Háagerði og Hvassaleiti. Einnig verður malbikað við Faxafen í Skeifunni eftir klukkan 18 þann sama dag.
Malbikað verður á Reynisvatnsvegi í Grafarholti (frá Kapellustíg að Fellsvegi), Viðarás í Árbæ og víða í Langagerði í Múlahverfi á mánudag Auk þess verður malbikað við Fossaleyni og Grasarima í Grafarvogi á þriðjudag
Á miðvikudag verður malbikað við Þverás í Árbæ. Malbikað verður við Laxakvísl og Seiðakvísl á fimmtudag. Á föstudaginn verður síðan malbikað á Fífurima.