„Nú vitum við stjórnendur betur“

Atvikið átti sér stað í sumarbúðum í Reykjadal í fyrra. …
Atvikið átti sér stað í sumarbúðum í Reykjadal í fyrra. Mynd er úr safni. Ljósmynd/Össur

Forstöðumaður Reykjadals, sumarbúða fyrir fötluð börn og ungmenni, segir að verklagi hafi verið breytt og mönnun endurskoðuð eftir að stúlka varð fyrir kynferðisofbeldi í sumarbúðunum. Brotið átti sér stað í fyrra og er gerandinn þroskaskertur starfsmaður sem var í verndaðri vinnu í Reykjadal.

Í skýrslu Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV) kemur fram að viðbrögð stjórnenda Reykjadals hafi verið ómarkviss og einkennst af þekkingarleysi. Ekki hafi verið haft tafarlaust samband við lögreglu, foreldra stúlkunnar og barnavernd.

Andrea Rói Sigurbjörns, forstöðumaður Reykjadals, segir í skriflegu svari að hringt hafi verið í forsjáraðila stúlkunnar um leið og málið kom upp og fundað með þeim. Því miður hafi starfsfólk ekki haft vitneskju um að gera annað á þessum tíma.

Ánægð með fyrstu viðbrögð starfsfólks

„Við erum ánægð með fyrstu viðbrögð starfsfólks okkar, þau voru fyrirsjáanleg miðað við þær vinnureglur og upplýsingar sem við höfðum síðasta sumar. Þau eru sérfræðingar í samskiptum og gerðu allt rétt þegar kemur að stuðningi við brotaþola eftir atvikið. Þau hlustuðu á frásögn brotaþola, trúðu og komu honum í öruggar hendur.

Nú vitum við stjórnendur betur og höfum lært af þeim mistökum að hafa ekki hringt í neyðarlínuna strax og sjáum vel þörfina á skýrum verkferli þegar kemur upp grunur um kynferðisofbeldi í sumarbúðunum.“

Faðir stúlkunnar sagði í samtali við mbl.is í dag að starfsfólk Reykjadals hefði að miklu leyti gert illt verra með röngum viðbrögðum, meðal annars tekið lök af rúmum og keyrt gerandann heim.

Taka ábendingunum alvarlega

Andrea segir að forsvarsmenn Reykjadals hafi fundað með GEV og taki ábendingum þeirra alvarlega. Allt verði gert til að sjá til þess að Reykjadalur verði öruggari.

Hán segir að síðasta haust hafi vinna hafist við breytingar og nýir verkferlar hafi verið teknir í notkun í vetur.

„Nú er til staðar skýr tilkynningarferill um hvernig stjórnendur og starfsfólk sumarbúðanna skal bregðast við frásögnum eða atvikum er varða kynferðislegt ofbeldi. Í verkferlinum er líka forvarna- og fræðsluáætlun sem við vinnum eftir.“

Þá hafi ný regla verið sett um að hver starfsmaður megi sjá um allt að tvö börn eftir stuðningsþörf, en áður sá hver starfsmaður um allt að þrjú börn.

Vel undirbúin í sumarið

Hán tekur fram að starfsfólk sæki sérstök undirbúningsnámskeið þar sem lögð sé áhersla á að gera sumarbúðirnar sem öruggastar.

Um sé að ræða þriggja daga námskeið þar sem allt starfsfólk hafi sótt fyrirlestur hjá Barnaheill um kynferðislegt ofbeldi og börn og farið í stöðvavinnu í tengslum við nýja verkferilinn.

„Einnig fóru öll í hópi vaktstjóra og aðstoðarvakstjóra á ítarlegt námskeið hjá Barnaheill til að geta fyrirbyggt, þekkt einkenni og stýrt vaktinni ef upp kemur grunur um kynferðislegt ofbeldi.“

Andrea tekur fram að stjórnendur og starfsfólk sé miður sín yfir því að atvikið hafi komið upp í sumarbúðunum.

„Við viljum gera allt sem við getum til að vinna úr þessu og halda áfram að vera til staðar fyrir gestina okkar og fjölskyldur þeirra. Við komum vel undirbúin til leiks fyrir komandi sumar og hvetjum öll sem vilja samtal, þá sérstaklega þau í hópi foreldra og forsjáraðila, að heyra í okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert