Tilkynnt var um ofurölvi einstakling sem sýndi af sér ógnandi hegðun í miðbæ Reykjavíkur.
Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu þangað til víman rennur af honum.
Lögreglunni barst tilkynning um annan ofurölvi einstakling sem var til vandræða á skemmtistað í miðbænum, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.
Tilkynnt var um þjófnað úr verslunarmiðstöð í hverfi 103, auk þess sem ökumaður bifreiðar var stöðvaður við eftirlit grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Hann reyndist einnig sviptur ökuréttindum.
Í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði og Garðabæ var tilkynnt um innbrot í bifreið og er málið í rannsókn.
Ökumaður bifreiðar var sömuleiðis stöðvaður við almennt umferðareftirlit. Reyndist hann vera á negldum hjólbörðum og þá voru börn í bifreiðinni ekki í viðeigandi öryggisbúnaði.
Í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti var tilkynnt um ölvaðan einstakling sem hafði dottið og hlotið við það höfuðáverka.